Portúgalski sóknarmaðurinn Cristiano Ronaldo er búinn að skrifa undir tveggja ára samning hjá Al Nassr í Sádi-Arabíu en þetta kemur fram í Al Arabiya.
Ronaldo, sem er 37 ára gamall, hefur síðustu daga verið í viðræðum við Al Nassr í Riyadh, höfuðborg Sádi-Arabíu, en félagið er að vonast til að kynna hann á næstu dögum.
Sóknarmaðurinn yfirgaf Manchester United rétt fyrir HM í Katar og var því frjálst að ræða við önnur félög.
Toppliðin í Evrópu sýndu því ekki áhuga á að fá Ronaldo og ákvað hann því að elta peninginn til Sádi-Arabíu.
Al Arabiya segir í dag að búið sé að ganga frá öllum atriðum samningsins og skrifaði Ronaldo í kvöld undir tveggja ára samning við félagið.
Það ætti að vera kynnt á næstu dögum samkvæmt miðlinum en fjölmargir blaðamenn frá Sádi-Arabíu taka undir þessi orð.
Þetta verður fimmta liðið sem Ronaldo spilar með á ferlinum á eftir United, Sporting, Real Madrid og Juventus.
Athugasemdir