„Við getum ekki annað en verið sátt við þetta, að vinna svona stóran sigur, þó að fótbolti gangi ekki endilega út á það en þá vinnum við leikinn og nýttum okkur svæðin sem við vildum nýta í upphafi leiks og fáum strax færi í tveimur fyrstu sóknunum og mark í annari og fljótlega mark númer tvö. Þannig leikmennirnir bara útfærðu þennan leik mjög vel," sagði Kristján Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar eftir 5-0 sigur á Þór/KA í dag.
Stjörnukonur voru komnar í 2-0 forystu á 10. mínútu leiksins. Kristján sagði það ekki endilega vera mikilvægt að skora snemma á Þór/KA liðið.
„Þór/KA hefur alveg sýnt það að þær hafa komið til baka í leikjum sem þær hafa lent í undir og verið kannski 2-3 mörkum undir. Þannig við vorum alveg varkár og ræddum það í hálfleik að þær geta alveg breytt um ham 1,2 og 3 þetta Þór/KA lið. Við gerðum alveg ráð fyrir því að það yrði erfitt í seinni hálfleik."
Lestu um leikinn: Stjarnan 5 - 0 Þór/KA
Stjarnan hefur núna unnið 4 leiki í röð í deildinni og eru búnar að jafna Val á stigum í toppi deildarinnar, en Valur spilar á morgun.
„Þetta er mjög ánægjulegt, en svona ég held að við séum bara á pari með stigasöfnunina miðað við það sem við höfum verið að gera í leikjunum þannig að þetta er mjög gott. Nú er svona einn pakki eftir, þrír leikir fyrir hlé sem verða töff, þannig við undirbúum okkur vel undir það."
Nú styttist í EM en Kristján segist ekki vera með neinar skoðanir á landsliðshópnum.
„Ég hef engar skoðanir á hópnum, það er ekki mitt að tjá mig um hópinn og eina sem ég veit er að liðið mun standa sig gríðarlega vel í sumar og ég hef mjög góða tilfinningu fyrir landsliðinu núna," sagði Kristján.
Viðtalið í heild má sjá í spilaranum hér að ofan.