Íslenska kvennalandsliðið er í leit að nýjum þjálfara til þess að stýra liðinu á EM sumarið 2022.
Jón Þór Hauksson sagði starfi sínu lausu í gær. Hann sagðist hafa brugðist sem þjálfari liðsins með því að að eiga samtöl undir áhrifum áfengis eftir sigur liðsins á Ungverjalandi.
Jón Þór Hauksson sagði starfi sínu lausu í gær. Hann sagðist hafa brugðist sem þjálfari liðsins með því að að eiga samtöl undir áhrifum áfengis eftir sigur liðsins á Ungverjalandi.
En hver gæti tekið við landsliðinu. Hér eru nokkrir möguleikar. Listinn er í stafrófsröð.
Davíð Snorri Jónasson
Davíð er fyrrum þjálfari Leiknis í Breiðholti og kom hann liðinu upp í úrvalsdeild á sínum tíma ásamt Frey Alexanderssyni, fyrrum þjálfara kvennalandsliðsins. Davíð hefur getið af sér gott orð sem þjálfari yngri landsliða karla á undanförnum árum. Hann var í þjálfarateymi kvennalandsliðsins á EM 2017.
Elísabet Gunnarsdóttir
Einn færasti þjálfari sem við Íslendingar eigum. Er búin að gera frábæra hluti með Kristianstad í Svíþjóð en hún er búin að þjálfa það lið frá 2009. Gerði þar áður Val fjórum sinnum að Íslandsmeisturum. Á síðastliðnu tímabili náði Kristianstad sínum besta árangri, endaði í þriðja sæti sænsku úrvalsdeildarinnar og verður í Meistaradeildinni á næstu leiktíð. Ólíklegt að landsliðsþjálfarastarfið komi á réttum tímapunkti núna fyrir Elísabetu.
Erlendur þjálfari: Helena Costa og Lisa Fallon
Gæti KSÍ leitað út fyrir landsteinana. Þar eru nokkrir spennandi kostir. Lisa Fallon hætti fyrr á árinu með London City Lionesses og er á lausu. Hún er með UEFA Pro þjálfararéttindi. Þá gæti verið þess virði að heyra í hinni portúgölsku Helenu Costa. Hún þjálfaði karlalið Clemont Foot í Frakklandi árið 2014 og var þar áður landsliðsþjálfari kvenna í Katar og Íran. Hún var ráðin njósnari hjá Eintracht Frankfurt í Þýskalandi 2017, en lítið hefur heyrst af henni síðan þá.
Halldór Jón Sigurðsson
Byrjaði að þjálfa drengjalið hjá Örgryte í Svíþjóð í fyrra, en var áður þjálfari hjá karlaliði Þórs og kvennaliði Þórs/KA. Donni, eins og hann er kallaður, gerði Þór/KA að Íslandsmeisturum 2017. Hafði áhuga á að taka við kvennalandsliðinu áður en Jón Þór var ráðinn 2018.
Kristján Guðmundsson
Kristján er með mikla reynslu í þjálfun, en hann hefur þjálfað kvennalið Stjörnunnar undanfarin tvö tímabil ásamt því að vera yfirþjálfari yngri flokka. Þar áður þjálfaði hann karlalið ÍBV, sem hann gerði að bikarmeisturum, Leiknis R., Keflavíkur, Vals, ÍR og Þórs. Hann þjálfaði einnig HB í Færeyjum.
Logi Ólafsson
Reynslumikill og hress þjálfari sem hefur áður þjálfað kvennalandsliðið í tvígang. Logi hefur komið víða á sínum þjálfaraferli og þekkir bransann inn út. Hann þjálfaði karlalið FH með Eiði Smára Guðjohsen á síðustu leiktíð, en er núna tæknilegur ráðgjafi hjá félaginu.
Ólafur Þór Guðbjörnsson
Ólafur Þór þjálfaði kvennalið Stjörnunnar frá 2014 til 2018 með mjög flottum árangri. Ólafur gerði Stjörnuna að Íslandsmeisturum 2014 og 2016, og að bikarmeisturum 2014 og 2015. Áður en hann tók við Stjörnunni var hann að þjálfa U17 og U19 kvennalandslið Íslands.
Pétur Pétursson
Reynslumikill þjálfari og fyrrum landsliðsmaður. Hefur þjálfað kvennalið Vals frá 2017 og gerði hann liðið að Íslandsmeisturum 2017. Hefur áður þjálfað hjá KSÍ sem aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins.
Þjálfarar yngri landsliða: Jörundur Áki Sveinsson og Þórður Þórðarson
KSÍ gæti talað við þjálfara yngri landsliða kvenna um að taka starfið að sér. Þar eru þeir Jörundur Áki Sveinsson og Þórður Þórðarson, sá fyrrnefndi er fyrrum A-landsliðsþjálfari og Þórður hefur komið inn í teymi A-landsliðsins að undanförnu.
Þorsteinn Halldórsson
Síðastur í stafrófsröðinni en ætti að vera með fyrstu aðilum sem KSÍ heyrir í. Hefur þjálfað kvennalið Breiðabliks frá 2015 með mjög flottum árangri. Gert liðið tvisvar að bikarmeisturum og þrisvar að Íslandsmeisturum. Þekkir marga leikmenn landsliðsins vel.
Hver sem þjálfarinn verður, þá yrði gaman að fá fyrrum landsliðskonu með inn í þjálfarateymið. Ásthildur Helgadóttir var orðuð við aðstoðarlandsliðsþjálfarastarfið þegar Jón Þór var ráðinn og Margrét Lára Viðarsdóttir yrði góður kostur ef hún hefur áhuga á að fara í þjálfun.
Athugasemdir