Georgíski vængmaðurinn Khvicha Kvaratskhelia hefur beðið um að vera seldur frá ítalska félaginu Napoli en þetta staðfestir Antonio Conte, þjálfari liðsins.
Kvaratskhelia er 23 ára gamall og verið einn af bestu sóknarmönnum Evrópu síðustu ár.
Hann var hreint út sagt stórkostlegur tímabilið 2022-2023 er Napoli vann deildina í fyrsta sinn í 33 ár.
Síðan þá hefur hann verið orðaður við öll helstu stórlið Evrópu og nú telur hann rétta tímann til að yfirgefa Napoli. Conte hefur staðfest að leikmaðurinn vilji fara í þessum glugga.
„Varðandi Kvara þá hefur hann núna beðið félagið um sölu. Ég segi ykkur þetta án þess að fegra orðin eitthvað frekar. Mér var tjáð þetta og síðan sagði hann mér þetta sjálfur. Ég er frekar vonsvinn. Ég eyddi sex mánuðum með honum og liðinu og lét honum líða eins og hann væri aðalmaðurinn í verkefninu.“
„Við unnum með félaginu varðandi framlengingu á nýjum samningi, en erum nú komnir á byrjunarreit. Maður verður bara að taka þessu, en ég gerði greinilega ekki nóg til að halda honum. Núna er þetta komið á þann stað þar sem ég verð að taka skref afturábak því ég get ekki hlekkjað leikmenn til að vera hjá félaginu þegar þeir vilja svo ekki vera hér.“
„Þetta kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Fulltrúar leikmannsins og félagsins munu nú leysa þetta og ef hann ákveður svo að vera áfram þá verður hann að vita að ég vildi neyða hann til að vera áfram.“
„Ég gerði þetta í sumar eða að því er ætlað er þar sem ég hélt ég gæti sannfært hann en mér tókst ekki ætlunarverk mitt,“ sagði Conte sem staðfesti einnig að leikmaðurinn yrði ekki með á móti Verona.
Samkvæmt Fabrizio Romano er PSG að ganga frá viðræðum við Napoli með von um að ná samkomulagi í næstu viku. Liverpool er einnig sagt fylgjast með stöðu vængmannsins.
Athugasemdir