Arne Slot var kátur eftir þægilegan sigur Liverpool gegn Accrington Stanley í enska FA bikarnum í gær og hrósaði Federico Chiesa að leikslokum.
Chiesa kom inn af bekknum í hálfleik þegar staðan var orðin 2-0 fyrir Liverpool og átti hann eftir að skora sitt fyrsta mark fyrir félagið í síðari hálfleiknum.
Chiesa, sem hefur verið að glíma við meiðsli á fyrri hluta tímabils, vonast til að halda sér heilum næstu mánuðina til að fá tækifæri til að sanna gæðin sín fyrir Arne Slot og stuðningsmönnum Liverpool.
„Fede (Chiesa) hefði byrjað þennan leik ef hann hefði getað æft síðustu tvo daga. Hann var veikur en náði sér tímanlega fyrir leikinn og fékk því að spila í seinni hálfleik. Ég er mjög ánægður með að hann hafi verið heill heilsu og klár í slaginn, það er mikilvægt skref fyrir hann alveg eins og að skora fyrsta markið sitt," sagði Slot.
„Hann er mjög kátur með að hafa skorað fyrsta markið sitt fyrir framan stuðningsmennina og vonandi getur hann haldið þessu áfram. Við megum samt ekki missa okkur of mikið í gleðinni, þetta var leikur gegn liði sem leikur í League Two. Þetta er stórt skref í rétta átt."
Athugasemdir