Stórliðin berjast um Joao Gomes - Mikill áhugi á Rashford - Hvert fer Kolo Muani?
   lau 11. janúar 2025 21:28
Ívan Guðjón Baldursson
Guardiola: James getur spilað betur - Þurfum meiri samkeppni
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Pep Guardiola var kátur eftir 8-0 sigur Manchester City gegn Salford City í enska bikarnum í kvöld.

Hann fór víðan völl þegar hann svaraði spurningum að leikslokum og hrósaði meðal annars James McAtee fyrir að skora þrennu á 20 mínútna kafla í seinni hálfleik, en sagði að leikmaðurinn getur spilað betur en hann gerði í dag.

„Við unnum loksins leik með stórum mun en Salford á virðingu skilið fyrir sína frammistöðu. Þeir gerðu okkur erfitt fyrir með að dekka okkur maður á mann en strákarnir voru mjög góðir að refsa þeim með góðum mörkum. Við nýttum færin okkar virkilega vel í þessum leik," sagði Guardiola.

„Ég er mjög ánægður fyrir hans hönd, James er sérstakur leikmaður. Það er ekki auðvelt að skora þrennu í einum leik en hann getur samt spilað betur en hann gerði í dag. Hann átti ekki sérlega góðan fyrri hálfleik en var flottur í seinni.

„Við erum að tala um virkilega hæfileikaríkan leikmann sem hefur verið hjá City í langan tíma. Hann er stuðningsmaður City og var einn af hæfileikaríkustu leikmönnunum til að koma í gegnum unglingastarfið hjá félaginu. Hann var fyrirliði í mjög sterku unglingaliði sem innihélt meðal annars Jadon Sancho, Cole Palmer, Morgan Rogers og Liam Delap. Ég er virkilega ánægður að hann sé ennþá hérna með okkur."


Pep hrósaði einnig Nico O'Reilly, Jeremy Doku og Jack Grealish áður en hann fór að ræða um framtíð félagsins.

„Nico var líka flottur í dag, hann var að spila í fyrsta sinn sem vinstri bakvörður. Við hefðum getað notað Josko (Gvardiol) eða Rico (Lewis) en þeir þurftu hvíld útaf miklu leikjaálagi í öðrum keppnum. Jeremy (Doku) var líka mjög góður, ég er ánægður með þennan leik.

„Jack (Grealish) átti góða stoðsendingu og mark og vonandi heldur hann áfram á þessari braut, það er mikilvægt að grípa tækifærin þegar þau gefast. Ég hef verið þjálfari hérna í meira en 500 leiki og við höfum kannski átt 487 góða leiki en 13 slæma leiki.

„Við höfum átt slæma leiki á þessu tímabili útaf ótrúlegum meiðslavandræðum í bland við brjálað leikjaálag. Við höfum ekki haft tíma eða mannskap til að vera samkeppnishæfir en núna eru menn að snúa aftur úr meiðslum hægt og rólega.

„Svo munu nýir leikmenn koma inn á þessu tímabili eða næsta og þá munu leikmenn þurfa að berjast meira til að halda sætinu sínu í byrjunarliðinu. Aukin samkeppni dregur fram það besta úr leikmönnum og þeir spila betur."

Athugasemdir
banner
banner