Daily Mail greinir frá því að Marcus Rashford ferðaðist ekki með leikmannahópi Manchester United sem heimsækir Arsenal í FA bikarnum á morgun.
Þessir gömlu erkifjendur eigast við í afar áhugaverðum bikarslag þar sem verður fróðlegt að sjá byrjunarliðin. Arsenal hefur verið að spila mikið af leikjum á skömmum tíma og gæti Mikel Arteta þurft að hvíla einhverja leikmenn.
Samkvæmt frétt Daily Mail fór Rashford ekki með í lestarferð Rauðu djöflanna og verður því hvorki í byrjunarliðinu né varamannabekknum á Emirates.
Miklar sögusagnir hafa verið í gangi um framtíð Rashford, þar sem félög á borð við AC Milan, Borussia Dortmund og Barcelona hafa öll áhuga á að krækja í þennan sóknarleikmann á lánssamningi.
Man Utd er sagt vera tilbúið til að greiða hluta af launum Rashford til að koma honum út á lánssamningi.
Félagið endurmetur svo stöðu mála varðandi framtíð leikmannsins þegar hann snýr aftur heim af láni.
Athugasemdir