Karl Robinson þjálfari Salford City sló á létta strengi eftir 8-0 tap gegn Manchester City í enska bikarnum í kvöld.
Salford City leikur í League Two deildinni, sem er sú fjórða efsta í enska deildakerfinu. Englandsmeistarar Man City voru alltaf líklegir til að sigra þennan leik með miklum mun.
„Það eru ótrúleg gæði í þessari keppni og við áttum ekki möguleika í dag. Pep og Man City sýna andstæðingum sínum ekki vanvirðingu og gerðu það ekki í dag. Þeir sýndu okkur hvers vegna þeir eru svona þekktir. Gæðin þeirra eru ótrúleg," sagði Robinson eftir tapið.
„Við dustum rykið af okkur og höldum áfram á okkar vegferð. Við höfum náð frábærum árangri síðustu 12 mánuði og eina markmiðið okkar er að komast upp úr deildinni sem við erum í."
Salford er í þriðja sæti í League Two deildinni, með 42 stig eftir 24 umferðir, og hefur haldið hreinu síðustu sex deildarleiki í röð. Liðið er því búið að fá átta mörk á sig í síðustu sjö leikjum í öllum keppnum.
„Ég sagði við strákana eftir leikinn að ég hefði alveg sætt mig við að fá 8 mörk á okkur í 7 leikjum, ég bjóst bara ekki við að öll mörkin kæmu í sama leiknum."
Athugasemdir