Federico Chiesa virðist ætla að vera áfram hjá Liverpool í janúar og berjast um sæti í leikmannahópi liðsins.
Þessi 27 ára gamli kantmaður hefur ekki fengið mörg tækifæri í haust undir stjórn Arne Slot en virðist vera staðráðinn í því að vinna sig upp goggunarröðina hjá félaginu.
Chiesa hefur verið sterklega orðaður við Napoli undanfarna daga þar sem hann gæti leyst Khvicha Kvaratskhelia, sem virðist vera á leið til PSG, af hólmi.
Ítalinn vill þó helst vera áfram hjá Liverpool og svaraði orðrómum fjölmiðla með myndbirtingu á Instagram. Þar er Chiesa að heilsa áhorfendum á Anfield til að fagna fyrsta marki sínu fyrir félagið sem hann skoraði í gær og við myndina stendur 'YNWA', slagorð stuðningsmanna Liverpool.
Umboðsmaður Chiesa segir einnig að skjólstæðingur sinn vilji vera áfram hjá Liverpool.
Chiesa hefur aðeins komið við sögu í fimm leikjum á tímabilinu og er núna búinn að skora eitt mark og gefa eina stoðsendingu. Hann hefur glímt við mikil meiðslavandræði allan ferilinn og er að vonast til að dvölin hjá Liverpool verði öðruvísi - sem hún hefur ekki verið hingað til.
Athugasemdir