Stórliðin berjast um Joao Gomes - Mikill áhugi á Rashford - Hvert fer Kolo Muani?
   lau 11. janúar 2025 22:03
Ívan Guðjón Baldursson
Spánn: Valencia aftur á botninn - Girona ætlar í Evrópu
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Carlos Corberán er tekinn við Valencia í efstu deild spænska boltans og hefur liðið byrjað þokkalega vel undir hans stjórn.

Lærisveinar hans klúðruðu frábærri stöðu gegn Real Madrid til að tapa þeim slag og unnu svo neðrideildalið Eldense í bikarnum, en í kvöld var komið að erfiðum leik á útivelli gegn Sevilla.

Staðan var markalaus í leikhlé og tóku gestirnir frá Valencia forystuna á 61. mínútu, þegar Luis Rioja skoraði eftir stoðsendingu frá Hugo Duro.

Þetta reyndist eitt af afar fáum færum Valencia í leiknum, en Sevilla skapaði sér ekki heldur mikið þar sem lærisveinar Corberán gerðu mjög vel í að takmarka tækifæri heimamanna í leiknum.

Það dugði þó ekki til vegna þess að Sevilla tókst að gera jöfnunarmark í uppbótartíma, þegar Albert Sambi Lokonga, á láni frá Arsenal, lagði upp fyrir bakvörðinn eftirsótta Adriá Pedrosa.

Lokatölur urðu því 1-1 og er Valencia áfram í botnsæti spænsku deildarinnar með 13 stig eftir 19 umferðir. Sevilla er með 23 stig.

Það fóru fleiri leikir fram í dag, þar sem Jhon Solís skoraði eina markið í sigri Girona á útivelli gegn Alavés á 91. mínútu. Girona er í sjöunda sæti eftir sigurinn, aðeins tveimur stigum frá Evrópu, á meðan Alavés er einu stigi fyrir ofan fallsvæðið.

Kike Pérez gerði þá eina mark leiksins í sigri Real Valladolid gegn Real Betis. Þetta er aðeins fjórði sigur Valladolid á tímabilinu og fleytir liðinu upp úr botnsæti deildarinnar.

Espanyol og Leganés skildu að lokum jöfn, 1-1, eftir skemmtilegan fallbaráttuslag með nóg af marktækifærum.

Sevilla 1 - 1 Valencia
0-1 Luis Rioja ('61 )
1-1 Adria Pedrosa ('90 )

Alaves 0 - 1 Girona
0-1 Jhon Solis ('90 )

Espanyol 1 - 1 Leganes
1-0 Leandro Cabrera ('2 )
1-1 Seydouba Cisse ('14 )

Valladolid 1 - 0 Betis
1-0 Kike Perez ('58 )
Athugasemdir
banner
banner
banner