Pep Guardiola þjálfari Manchester City svaraði spurningum eftir 8-0 stórsigur gegn Salford City í enska bikarnum í kvöld.
Walker var ekki í leikmannahópi Man City í sigrinum og var Guardiola spurður fyrir leik hvort það væri útaf áhuga frá Sádi-Arabíu, en neitaði að svara.
Hann var þó tilbúinn til að gefa svar eftir leik og staðfesti þar að 34 ára gamall Walker, sem á eitt og hálft ár eftir af samningi, vilji skipta um félag.
„Fyrir tveimur dögum bað Kyle um að fá að skoða samningstilboð frá félagsliði úr öðru landi. Hann ræddi við Txiki Begiristain (yfirmann fótboltamála) um það. Ég vil bara nota leikmenn sem vilja vera hjá félaginu og eru með hugann 100% við efnið," sagði Guardiola eftir stórsigurinn.
11.01.2025 17:54
Walker ekki í hóp hjá City: Á leið til Sádi-Arabíu?
Guardiola er leikmanninum þó gríðarlega þakklátur og bendir á að Walker geti verið áfram hjá félaginu þrátt fyrir allt.
„Fyrir tveimur árum bað hann um að ræða við FC Bayern, því hann var spenntur fyrir að skipta um félag til að prófa nýja áskorun. Tilboðið frá Bayern var ekki nógu gott, við gátum ekki samþykkt það og sem betur fer. Kyle hefur verið ótrúlega mikilvægur fyrir okkur, við hefðum ekki afrekað allt sem við höfum gert á síðustu árum án hans.
„Hann gaf okkur eiginleika sem við höfðum ekki, hann hefur verið stórkostlegur fyrir okkur. Ég ber mikla virðingu fyrir honum og þó að hann sé að skoða tilboð frá öðrum löndum þýðir það ekki endilega að hann sé farinn."
Athugasemdir