Spænska félagið Valencia átti hryllilegan fyrri hluta tímabils og hefur ráðið Carlos Corberán úr enska boltanum til að hjálpa sér að forðast fall.
Corberán stýrði West Brom við góðan orðstír þar til Valencia fékk hann til sín á aðfangadag. Síðan hann tók við hefur Umar Sadiq komið til Valencia á lánssamningi og virðist Max Aarons, hægri bakvörður Bournemouth, vera næstur inn.
Sky Sports greinir frá því að Valencia er búið að ná samkomulagi við Bournemouth um að fá Aarons á lánssamningi með kaupmöguleika.
Kaupmöguleikinn hljóðar upp á 7,5 milljónir punda, sem samsvarar tæplega 9 milljónum evra. Það er svipað verð og Bournemouth greiddi til að kaupa Aarons fyrir einu og hálfu ári síðan.
Aarons er 25 ára gamall og þótti einn efnilegasti bakvörður Evrópu á sínum tíma. Hann var meðal annars orðaður við FC Bayern, Manchester United og West Ham þegar hann var enn leikmaður Norwich, en hann varð áfram hjá félaginu.
Tveimur árum eftir allan þennan áhuga var Aarons loks seldur frá Norwich. Bournemouth ákvað að festa kaup á þessum afar sókndjarfa bakverði en honum hefur ekki tekist að vinna sér inn byrjunarliðssæti hjá félaginu.
Hann er ekki í myndinni hjá Andoni Iraola þjálfara og mun því leika í spænska boltanum út tímabilið.
Athugasemdir