Grindvíkingar halda áfram að styrkja sig fyrir komandi átök í Lengjudeildinni en Sindri Þór Guðmundsson er genginn í raðir félagsins frá nágrönnum þeirra í Reyni Sandgerði.
Sindri er 27 ára gamall fjölhæfur leikmaður sem er uppalinn hjá Keflavík.
Hann lék 87 leiki og skoraði 4 mörk í efstu deild með Keflvíkingum en alls lék hann 164 leiki í deild- og bikar.
Á síðasta ári eyddi hann sumrinu hjá Reyni Sandgerði þar sem hann gerði 5 mörk í 20 leikjum er liðið féll niður í 3. deild.
Sindri hefur æft og spilað með Grindvíkingum síðustu vikur og nú samið við félagið um að leika með liðinu í sumar.
„Sindri er mjög fjölhæfur leikmaður sem getur leyst margar stöður. Hann kom af krafti inn á æfingar hjá okkur fyrir áramót og hefur staðið sig mjög vel. Ég hlakka til að vinna með Sindra á tímabilinu,“ sagði Haraldur Árni Hróðmarsson, þjálfari Grindavíkur, um Sindra á heimasvæði Grindavíkur á Facebook.
Athugasemdir