Matheus Cunha, leikmaður Wolves á Englandi, mun að öllum líkindum klára tímabilið með liðinu, en hann hefur verið orðaður við Arsenal og Manchester United síðustu vikur.
Brasilíumaðurinn hefur verið langbesti maður Wolves á tímabilinu og skorað 10 mörk í 19 deildarleikjum ásamt því að gefa fjórar stoðsendingar.
Cunha er 25 ára gamall og með samning til 2027 en Wolves hefur þegar boðið honum nýjan samning.
Leikmaðurinn hefur ekki enn tekið ákvörðun varðandi framtíðina en samkvæmt Sun er það líklegasta niðurstaðan að hann klári tímabilið með Úlfunum.
Þó kemur fram að það sé ekki útilokað að hann færi sig um set í þessum mánuði.
Arsenal og Manchester United eru bæði að leitast eftir því að styrkja framlínuna í þessum glugga og er Cunha sagður þar ofarlega á blaði en þau þurfa líklega að horfa annað.
Cunha kom til Wolves á láni frá Atlético Madríd í janúar fyrir tveimur árum og gerði skiptin síðan varanleg um sumarið.
Athugasemdir