Thomas Frank þjálfari Brentford var svekktur eftir 0-1 tap á heimavelli gegn Plymouth, botnliði Championship deildarinnar, í enska bikarnum í gær.
Plymouth var að spila sinn fyrsta leik undir stjórn nýs þjálfara eftir að Wayne Rooney var rekinn og Miron Muslic ráðinn inn í hans stað.
Hákon Rafn Valdimarsson varði mark Brentford en gat lítið gert til að koma í veg fyrir sigurmark leiksins.
„Við erum mjög vonsviknir en það er mikilvægt að halda haus. Við vorum ekki nógu góðir í þessum leik, við sköpuðum okkur ekki neitt sóknarlega. Plymouth spilaði góðan leik, þeir hlupu mikið og vörðust eins og lífið þeirra lægi á því að halda hreinu. Þetta var frábær frammistaða hjá þeim og þeir eiga sigurinn skilið. Við vorum ekki nógu góðir í dag," sagði Frank, sem hvíldi lykilmenn í fyrri hálfleik en skipti Bryan Mbeumo, Nathan Collins, Keane Lewis-Potter og Yoane Wissa inn í seinni hálfleik þegar staðan var enn markalaus.
„Við sköpuðum ekki nóg í fyrri hálfleik og heldur ekki eftir að ég skipti helstu sóknarmönnunum inn. Við vorum ekki upp á okkar besta og okkur var refsað fyrir það. Okkur vantaði kannski 20% uppá og það er nóg þegar maður mætir liði úr Championship, þó að það sé botnliðið þá er það samt í deildinni."
Brentford er úr leik í enska bikarnum en liðið er í ellefta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 27 stig eftir 20 umferðir.
Athugasemdir