Milan 1 - 1 Cagliari
1-0 Alvaro Morata ('51)
1-1 Nadir Zortea ('55)
1-0 Alvaro Morata ('51)
1-1 Nadir Zortea ('55)
AC Milan tók á móti Cagliari í lokaleik kvöldsins í efstu deild ítalska boltans og var staðan markalaus eftir nokkuð bragðdaufan fyrri hálfleik, þar sem bæði lið fengu hálffæri til að skora en sköpuðu ekki mikla hættu.
Síðari hálfleikurinn hófst með látum þegar Milan tók forystuna á 51. mínútu en gestirnir frá Cagliari jöfnuðu skömmu síðar.
Álvaro Morata skoraði fyrir Milan þar sem hann var fyrstur til boltans eftir stangarskot Christian Pulisic, en fjórum mínútum síðar var bakvörðurinn sókndjarfi Nadir Zortea búinn að svara með skoti utan teigs.
Mike Maignan, sem átti annars góðan leik, átti að verja þessa marktilraun frá Zortea en missti boltann undir hendurnar. Hann mun vilja gleyma þessum mistökum sem fyrst vegna þess að liðsfélögum hans tókst ekki að gera sigurmark þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Milan sótti án afláts í síðari hálfleik en varnarmenn Cagliari og sérstaklega Elia Caprile markvörður áttu stórleik. Caprile bjargaði sínum mönnum með mögnuðum markvörslum.
Milan er í áttunda sæti ítölsku deildarinnar eftir þetta jafntefli, með 28 stig eftir 18 umferðir. Liðið er átta stigum frá Lazio í Meistaradeildarsæti en með tvo leiki til góða.
Cagliari er í fallsæti, með 18 stig eftir 20 umferðir. Liðið er þó aðeins einu stigi frá öruggu sæti og ekki nema tveimur stigum frá 12. sæti deildarinnar í ótrúlega þéttum pakka.
Athugasemdir