„Fyrri hálfleikur var vel spilaður og það var mikill kraftur í okkur. Seinni hálfleikurinn var alveg skelfilegur og þessi leikur var lengi að líða. Þetta var eins og sjá málningu þorna," sagði Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar eftir 3-2 sigur á Víkingi Ólafsvík í Fótbolta.net mótinu í kvöld en öll mörk leiksins komu í fyrri hálfleik.
Sveinn Sigurður Jóhannesson spilaði fyrri hálfleikinn í marki Stjörnunnar en Guðjón Orri Sigurjónsson tók stöðu hans í hálfleik. Var Rúnar ósáttur við Svein eftir mörkin tvö sem hann fékk á sig í fyrri hálfleik?
„Nei, nei, alls ekki. Hann fær dæmt á sig víti sem var algjör óþarfi, það var samskiptaleysi á milli þeirra. Hann gat ekkert gert í seinna markinu. Við gerðum fimm breytingar í hálfleik og honum var skipt út af. Það var fyrirfram ákveðið."
Breiddin í liði Stjörnunnar er mjög góð í augnablikinu en Rúnar útilokar þó ekki að styrkja vörnina meira áður en keppni í Pepsi-deildinni hefst.
„Eins og staðan er núna erum við mjög ánægðir með hópinn okkar. Þetta er þéttur hópur og góðir karakterar. Við erum ekki að leita að neinu sérstöku. Við gætum styrkt okkur eitthvað varnarlega en við sjáum til hvernig það fer. Við erum ekkert að stressa okkur. Við erum fínir framarlega og á miðjunni en varnarlega þyrftum við kannski að doubla einhverjar stöður til að fá meiri samkeppni."
Hér að ofan má hlusta á viðtalið við Rúnar í heild sinni.
Athugasemdir