Davies fer líklega til Real Madrid - Liverpool ræðir við Díaz - Varnarmaður Arsenal til Ítalíu?
   sun 22. september 2024 18:45
Ívan Guðjón Baldursson
Spánn: Barcelona skoraði fimm í Villarreal
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Þremur fyrstu leikjum dagsins er lokið í spænska boltanum, þar sem áhugaverður slagur fór fram í Villarreal.

Villarreal tók þar á móti Barcelona í toppbaráttu spænsku deildarinnar og réði engan veginn við andstæðinga sína sem eru að spila glimrandi skemmtilegan sóknarbolta undir stjórn Hansi Flick.

Robert Lewandowski skoraði tvö fyrstu mörk leiksins en Ayoze Pérez tókst að minnka muninn eftir stoðsendingu frá Nicolas Pépé, fyrrum kantmanni Arsenal, og var staðan 1-2 eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik þar sem bæði lið fengu góð færi til að skora, en Börsungar nýttu sín tækifæri betur.

Gestirnir frá Barcelona voru sterkari aðilinn í síðari hálfleik og skoraði Pablo Torre á 58. mínútu, skömmu áður en Lewandowski steig á vítapunktinn í tilraun til að fullkomna þrennuna sína. Pólsku goðsögninni brást þó bogalistin en það kom ekki að sök, þar sem Raphinha skoraði síðustu tvö mörk leiksins.

Lokatölur urðu 1-5 fyrir Barcelona í opnum og skemmtilegum slag, þar sem heimamenn í Villarreal komu boltanum í netið fjórum sinnum en fengu aðeins einu sinni dæmt mark.

Börsungar eru áfram á toppi spænsku deildarinnar með fullt hús stiga, 18 stig eftir 6 umferðir. Villarreal er í fimmta sæti með 11 stig, en þetta er fyrsta tap liðsins á nýju deildartímabili.

Getafe og Leganés skildu jöfn 1-1 í fyrsta leik dagsins, áður en Athletic Bilbao sigraði gegn Celta Vigo.

Gorka Guruzeta skoraði tvennu í 3-1 sigri Athletic á heimavelli, en Iago Aspas fyrrum leikmaður Liverpool gerði eina mark Celta í leiknum úr vítaspyrnu.

Nico Williams var ekki með vegna meiðsla, en stóri bróðir hans Inaki var í byrjunarliðinu og lagði upp síðasta mark leiksins.

Athletic fer upp í þriðja sæti deildarinnar með þessum sigri, en þetta var þriðji sigur liðsins í röð. Baskarnir eiga 13 stig eftir 7 umferðir.

Villarreal 1 - 5 Barcelona
0-1 Robert Lewandowski ('20 )
0-2 Robert Lewandowski ('35 )
1-2 Ayoze Perez ('38 )
1-3 Pablo Torre ('58 )
1-3 Robert Lewandowski ('66 , Misnotað víti)
1-4 Raphinha ('75 )
1-5 Raphinha ('83 )

Athletic 3 - 1 Celta
1-0 Gorka Guruzeta ('4 )
1-1 Iago Aspas ('25 , víti)
2-1 Gorka Guruzeta ('39 )
3-1 Alvaro Djalo ('80 )

Getafe 1 - 1 Leganes
0-1 Jorge Saenz ('76 )
1-1 Borja Mayoral ('83 , víti)
Athugasemdir
banner
banner
banner