Pep Guardiola var kátur eftir 3-1 sigur Manchester City gegn Brighton í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Erling Braut Haaland skoraði tvennu í sigrinum og er kominn með 17 mörk í 11 fyrstu úrvalsdeildarleikjunum sínum. Hreinlega ótrúleg tölfræði og ljóst að Norðmaðurinn verður fyrstur til að rjúfa 40 og 50 marka múrana áframhaldi. Andy Cole og Alan Shearer skoruðu 34 mörk þegar spilaðar voru 42 umferðir á hverri leiktíð og stendur það met enn í dag, þó ekki lengi nema Haaland lendi í slæmum meiðslum.
Guardiola viðurkennir að Haaland er gríðarlega hæfileikaríkur sóknarmaður en bendir á að hann sé þó ekki sá besti sem hann hafi þjálfað. Það er að sjálfsögðu Lionel Messi.
„Þetta var mjög erfiður leikur og við gerðum vel að standa uppi sem sigurvegarar. Brighton spilaði maður á mann og gerði okkur erfitt fyrir, það eru margir góðir leikmenn í þessu liði," sagði Guardiola og sneri sér svo að Haaland.
„Tölfræðin er ótrúleg og það er enginn sem efast um getu hans. Hann er ekki besti sóknarmaður sem ég hef starfað með en hann er án nokkurs vafa einn af þeim bestu. Hann er ótrúlega metnaðarfullur leikmaður og hjálpaði okkur að vinna þennan leik."
Auk þess að hafa þjálfað Messi hefur Guardiola einnig þjálfað framherja á borð við Sergio Agüero, Zlatan Ibrahimovic, Thierry Henry, Robert Lewandowski og Arjen Robben.
Kevin De Bruyne skoraði þriðja mark City og var valinn besti maður vallarins af Sky Sports.
„Við vorum heppnir að vera með gæðin til að skora þriðja markið. Þeir gerðu okkur erfitt fyrir og það var mikilvægt að ná í þessi stig eftir tapið á Anfield. Sem betur fer skoraði Kevin þetta stórbrotna mark, það var mikilvægt til að forðast að tapa stigum."