Cristiano Ronaldo, leikmaður Manchester United, var langt því frá að vera sáttur í miðri viku þegar Man Utd og Tottenham mættust.
United vann leikinn afar sannfærandi með tveimur mörkum gegn engu en undir lok leiks neitaði Ronaldo því að koma inn á af bekknum og gekk hann inn til búningsherbergja á lokamínútu leiksins.
Þá var Ronaldo mjög pirraður þegar Erik ten Hag, stjóri Man Utd, tók hann af velli í stöðunni 0-0 gegn Newcastle í síðustu umferð en þá voru um fimmtán mínútur eftir af leiknum.
Fjölmiðlar hafa eftir þetta atvik verið að rifja upp ummæli Sir Alex Ferguson en þessi goðsögn hjá Man Utd hikaði ekki við að láta menn fara frá félaginu ef þeir töldu sig vera stærri en stjórinn.
„Um leið og leikmaður heldur að hann sé stærri en stjórinn, þá verður hann að fara," sagði Sir Alex á sínum tíma.
Ronaldo verður ekki í leikmannahópi Man Utd í dag gegn Chelsea og þá hefur hann þurft að æfa einn í þrjá daga.
Einnig var fjallað um það að Man Utd hafi sektað hann um tveggja vikna laun en Ten Hag vildi ekki tjá sig um þann orðróm.