Real Madrid vill Enzo og Huijsen - Liverpool, Arsenal og Man Utd hafa áhuga á Gibbs-White - Sane orðaður við Liverpool
banner
   lau 22. október 2022 12:00
Aksentije Milisic
Segir að hann hafi brugðist Mourinho en ekki öfugt

Í lok ágúst mánaðar árið 2020 keypti Tottenham bakvörðinn Matt Doherty frá Wolves fyrir 15 milljónir punda. Leikmaðurinn skrifaði undir fjögurra ára samning við félagið.


Jose Mourinho var þá stjóri Tottenham en óhætt er að segja að Doherty náði ekki að spila vel undir stjórn Mourinho en töluvert var rætt og ritað um samband þeirra.

„Ég brást honum. Fólk heldur að hann hafi verið slæmur fyrir mig, en það var öfugt. Hann hafði mikla trú á mér en ég náði ekki að endurgjalda honum traustið," sagði Doherty.

„Ég spilaði ekki vel, þetta gekk ekki upp. Þetta var öðruvísi en hjá Wolves. Tottenham hefur mikla getu að komast hátt upp á völlinn með þessa leikmenn sem við höfum, þá kannski þurfti ég ekki að spila ofarlega og skapa færi og stöður," sagði bakvörðurinn.

„Þannig að mitt starf var að verjast en minn leikur snýst um að fara í sókn. Jose reyndi að spila mér ofar á vellinum, en það virkaði ekki fyrir liðið. Ég skildi alltof mikið pláss eftir og ég náði ekki að standa mig fyrir hann."

Doherty hefur verið meiddur en hann er nú aftur kominn í liðið hjá Spurs undir stjórn Antonio Conte.

„Mourinho er frábær náungi. Ég gæti núna setið hérna og spjallað við hann og borðað með honum kvöldmat. Ég sé smá eftir þessum tíma, að hafa ekki náð að skila þeirri frammistöðu sem hann hélt að hann myndi fá frá mér."


Athugasemdir
banner