
Mustapha Hadji, fyrrum landsliðsmaður Marokkó, hefur verið dæmdur í fimm ára bann frá fótbolta eftir að upp komst að hann hafi verið með falsað þjálfarapróf.
Hann hafði starfað sem aðstoðarþjálfari Marokkó í átta ár og var næstum farinn með landsliðinu á HM áður en hann hætti störfum fyrr á þessu ári. Nokkrum mánuðum seinna komst svo upp um svindlið.
Þetta mál hefur vakið mikla athygli því Hadji var kosinn besti fótboltamaður Afríku 1998 og lék meðal annars fyrir Deportivo La Coruna og Aston Villa á flottum ferli. Hann fór með landsliði Marokkó á HM 1994 og 1998.
Hinn 51 árs gamli Hadji var með falsað A-stigs þjálfarapróf en án þess má hann ekki starfa í hæsta gæðaflokki. Hann hefur neitað að tjá sig um málið og því er ekki vitað hvort hann ætli að áfrýja dómnum.
Raymond Hack, forseti knattspyrnusambandsins í Marokkó, staðfesti að Hadji hafi aldrei hlotið A-stigs þjálfarapróf frá sambandinu og talar um þetta sem sorgarmál fyrir marokkóskan fótbolta.
Hadji lagði fótboltaskóna á hilluna 2010 og starfaði sem aðstoðarþjálfari Umm Salai í Katar áður en hann var ráðinn til Marokkó. Þar starfaði hann sem aðstoðarþjálfari Badou Zaki, Herve Renard og Vahid Halilhodzic frá 2014 til 2022.