Mathias Pogba, eldri bróður Paul Pogba, hefur verið sleppt úr gæsluvarðhaldi eftir að hann var handtekinn í september.
Paul segir bróður sinn vera part af glæpahring sem er að reyna að beita sig fjárkúgunum, en Mathias hefur haldið því fram að Paul skuldi þessum glæpamönnum pening fyrir að hafa notað nafn þeirra til að verja sig á götum Parísar. Þá hefur Mathias einnig haldið því fram að Paul sé heltekinn af galdramennsku og hafi látið setja álög á ýmsar manneskjur.
Saga Paul er öðruvísi. Hann segir glæpagengið vera með hótanir í sinn garð og að gengið vilji 11 milljónir evra til að vernda hann. Paul borgaði genginu 100 þúsund evrur eftir að grímuklæddir menn brutust inn í íbúð sem hann dvaldi í en fór svo með málið til lögreglunnar.
Mathias heldur fram sakleysi sínu og segist ekki tengjast neinum fjárkúgunartilraunum gagnvart bróður sínum. Hann gengur laus sem stendur en má hvorki hafa samband við móður sína né bróður sinn. Þá má hann ekki yfirgefa Frakkland eða nota samfélagsmiðla. Réttarhöldin verða haldin á næsta ári.