Youssoufa Moukoko er líklega eftirsóttasti táningur fótboltaheimsins þar sem hann rennur út á samningi næsta sumar.
Moukoko er 18 ára gamall sóknarmaður Borussia Dortmund með 6 mörk í 14 deildarleikjum á tímabilinu. Hann á tvo landsleiki að baki fyrir Þýskaland og kom við sögu á HM í Katar.
Dortmund vill halda ungstirninu sínu en umboðsmaður Moukoko sagði á dögunum að aðilar væru ekki nálægt því að ná samkomulagi.
Þýski miðillinn Bild greindi frá því í gær að Moukoko hafi hafnað lokatilboði Dortmund sem var virði tæplega 6 milljóna evra á tímabil. Moukoko svaraði greininni með myndbirtingu á Instagram í gær og bað fólk um að trúa ekki öllu sem það les.
„Vinsamlegast ekki trúa öllu sem þið lesið í dagblöðunum! Ég veit að þetta er allt partur af fótboltaheiminum. Ég er ennþá ungur og ætla ekki að leyfa fjölmiðlum að setja pressu á mig varðandi framtíðina. Ég er einungis einbeittur að seinni hluta tímabilsins með Borussia Dortmund," segir Moukoko.
„Þetta snýst allt um Borussia Dortmund. Ég er ekki og mun aldrei vera stærri heldur en félagið. Ég er bara lítill partur af þessu félagi.
„Það er sorglegt hvað er auðvelt fyrir fjölmiðla að stjórna umræðunni. Núna hefur fullt af fólki verið gefin röng ímynd af mér. Það gerir mig mjög sorgmæddan. Ég er ennþá í sjokki yfir þessum fréttum."