Liverpool vann öruggan 4-1 sigur á Ipswich Town í 23. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Anfield í dag og er áfram með sex stiga forystu. Arsenal barðist þá við mótlætið og vann nauman 1-0 sigur á Úlfunum á Molineux.
Arne Slot stillti upp sínu sterkasta liði gegn Ipswich og var ekkert á því að fara tapa stigum í dag.
Dominik Szoboszlai skoraði snemma leik með frábæru skoti við vítateigslínuna. Ungverjinn fékk boltann frá Ibrahima Konate og smurði boltann neðst í hægra hornið.
Egypski sóknarmaðurinn Mohamed Salah hafði haft nokkuð hægt um sig í fyrstu deildarleikjum ársins en er nú kominn aftur á skrið. Hann gerði annað markið eftir laglega fyrirgjöf Cody Gakpo.
Boltinn fór yfir allan pakkann og á fjær á Salah sem var í þröngu færi en hann náði að klína boltanum efst í nærhornið. Hans 19. deildarmark á tímabilinu.
Gakpo gerði síðan þriðja markið er hann hirti frákast í teignum og skoraði. Hollendingurinn verið frábær á tímabilinu og gerði sitt sjöunda mark í deildinni. Hann var aftur á ferðinni á 66. mínútu er Alexander-Arnold kom með konfekt-fyrirgjöf frá hægri og beint á kollinn á Gakpo sem stangaði boltanum í þaknetið. Stórkostlegur leikur hjá Gakpo.
Nýliðarnir í Ipswich gerðu sárabótarmark undir lok leiks en þar var að verki Jacob Greaves. Slot eflaust ekki sáttur miðað við að Ipswich skapaði sér lítið sem ekkert stærstan hluta leiksins.
Annars öruggt og þægilegt hjá toppliðinu sem er nú með 53 stig á toppnum en Ipswich í 18. sæti með 16 stig.
Umdeilt rautt spjald er Arsenal marði sigur á Úlfunum
Arsenal marði sigur á Wolves, 1-0, á Molineux-leikvanginum í Wolverhampton, en ansi umdeilt atvik átti sér stað undir lok fyrri hálfleiks.
Kai Havertz minnti stuðningsmenn Arsenal á að félagið þarf alvarlega að fara að ráðast í þær aðgerðir að fá inn nýjan framherja en hann fór illa með tvö úrvalsfæri í fyrri hálfleiknum.
Á lokamínútum hálfleiksins fékk hinn 18 ára gamli Myles Lewis-Skelly að líta beint rautt spjald fyrir að brjóta á Matt Doherty sem var að keyra fram í skyndisókn. Michael Oliver, dómari leiksins, dró upp rauða spjaldið sem mörgum fannst fremur grimmur dómur.
Brotið átti sér stað rétt fyrir utan vítateig Arsenal og hefði gult sennilega verið sanngjarnt en VAR staðfesti rauða spjald Oliver og Arsenal því manni færri.
Arsenal-menn fóru betur af stað í fyrri hálfleiknum en Úlfarnir unnu sig inn í leikinn og fóru að skapa sér fleiri færi þegar leið á hálfleikinn.
Hlutirnir breyttust fljótlega eftir að Joao Gomes, miðjumaður Wolves, fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt því aðeins nokkrum mínútum síðar skoraði ítalski varnarmaðurinn Riccardo Calafiori sigurmarkið með skoti úr teignum. Boltinn datt fyrir hann í erfiðri skotstöðu en hann náði að setja ágætis kraft í skotið og skila boltanum neðst í hægra hornið.
Gestirnir héldu út og fögnuðu 1-0 sigri. Úrslitin þýða að Arsenal er áfram sex stigum á eftir toppliði Liverpool.
Isak með tvö í endurkomu Newcastle og annar sigur Moyes í 700. leiknum
Newcastle United kom til baka gegn Southampton og vann 3-1 sigur á St. Mary's leikvanginum í dag.
Jan Bednarek kom Southampton óvænt í forystu á 10. mínútu með hörkuskalla eftir fyrirgjöf James Bree en Alexander Isak snéri við taflinu á fjórum mínútum.
Svíinn skoraði úr vítaspyrnu á 26. mínútu og kom síðan Newcastle yfir eftir sendingu Jacob Murphy. Sautjánda mark Isak sem ætlar að gera harða atlögu að markakóngstitlinum.
Ítalski miðjumaðurinn Sandro Tonali gerði þriðja markið snemma í síðari hálfleik og kom Newcastle aftur á sigurbraut. Liðið er með 41 stig í 4. sæti deildarinnar, aðeins fjórum stigum frá öðru sætinu.
Everton vann þá annan leikinn í röð undir David Moyes, sem var að stýra 700. úrvalsdeildarleik sínum á ferlinum, en það var Iliman Ndiaye sem skoraði eina markið úr vítaspyrnu á 42. mínútu í 1-0 sigri á Brighton.
Ndiaye var einmitt líka besti maður Everton í síðasta sigurleik og virðist vera að njóta sín í botn undir Moyes.
Everton er í 16. sæti með 23 stig en Brighton í 9. sæti með 34 stig.
Bournemouth hélt áfram góðu gengi sínu með því að vinna spútniklið Nottingham Forest, 5-0, á Vitality-leikvanginum í Bournemouth.
Heimamenn höfðu ekki tapað deildarleik síðan í lok nóvember og var engin breyting á því.
Dango Ouattara skoraði þrennu fyrir Bournemouth, sem var hans fyrsta fyrir félagið og þá skoraði Justin Kluivert eitt og lagði upp annað.
Antoine Semenyo skoraði fimmta og síðasta mark Bournemouth undir lokin í þessum sannfærandi sigri og er liðið nú komið upp í 6. sæti með 40 stig.
Úrslit og markaskorarar:
Bournemouth 5 - 0 Nott. Forest
1-0 Justin Kluivert ('9 )
2-0 Dango Ouattara ('55 )
3-0 Dango Ouattara ('61 )
4-0 Dango Ouattara ('87 )
5-0 Antoine Semenyo ('90 )
Brighton 0 - 1 Everton
0-1 Iliman Ndiaye ('42 , víti)
Liverpool 4 - 1 Ipswich Town
1-0 Dominik Szoboszlai ('11 )
2-0 Mohamed Salah ('35 )
3-0 Cody Gakpo ('44 )
4-0 Cody Gakpo ('66 )
4-1 Jacob Greaves ('90 )
Southampton 1 - 3 Newcastle
1-0 Jan Bednarek ('10 )
1-1 Alexander Isak ('26 , víti)
1-2 Alexander Isak ('30 )
1-3 Sandro Tonali ('51 )
Wolves 0 - 1 Arsenal
0-1 Riccardo Calafiori ('74 )
Rautt spjald: ,Myles Lewis-Skelly, Arsenal ('43)Joao Gomes, Wolves ('70)
Stöðutaflan
England
Premier league - karlar
L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | Liverpool | 22 | 16 | 5 | 1 | 54 | 21 | +33 | 53 |
2 | Arsenal | 23 | 13 | 8 | 2 | 44 | 21 | +23 | 47 |
3 | Nott. Forest | 23 | 13 | 5 | 5 | 33 | 27 | +6 | 44 |
4 | Man City | 23 | 12 | 5 | 6 | 47 | 30 | +17 | 41 |
5 | Newcastle | 23 | 12 | 5 | 6 | 41 | 27 | +14 | 41 |
6 | Chelsea | 23 | 11 | 7 | 5 | 45 | 30 | +15 | 40 |
7 | Bournemouth | 23 | 11 | 7 | 5 | 41 | 26 | +15 | 40 |
8 | Aston Villa | 23 | 10 | 7 | 6 | 34 | 35 | -1 | 37 |
9 | Brighton | 23 | 8 | 10 | 5 | 35 | 31 | +4 | 34 |
10 | Fulham | 23 | 8 | 9 | 6 | 34 | 31 | +3 | 33 |
11 | Brentford | 23 | 9 | 4 | 10 | 42 | 40 | +2 | 31 |
12 | Man Utd | 23 | 8 | 5 | 10 | 28 | 32 | -4 | 29 |
13 | Crystal Palace | 23 | 6 | 9 | 8 | 26 | 30 | -4 | 27 |
14 | West Ham | 23 | 7 | 6 | 10 | 28 | 44 | -16 | 27 |
15 | Tottenham | 23 | 7 | 3 | 13 | 46 | 37 | +9 | 24 |
16 | Everton | 22 | 5 | 8 | 9 | 19 | 28 | -9 | 23 |
17 | Leicester | 23 | 4 | 5 | 14 | 25 | 49 | -24 | 17 |
18 | Wolves | 23 | 4 | 4 | 15 | 32 | 52 | -20 | 16 |
19 | Ipswich Town | 23 | 3 | 7 | 13 | 21 | 47 | -26 | 16 |
20 | Southampton | 23 | 1 | 3 | 19 | 16 | 53 | -37 | 6 |
Athugasemdir