Man Utd heldur áfram að reyna við Dorgu, Neymar er til í að fórna launum til að komast til Santos og Aston Villa hefur áhuga á varnarmanni Chelsea
   sun 26. janúar 2025 21:43
Ívan Guðjón Baldursson
Ítalía: Albert með stangarskot í langþráðum sigri
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Lazio 1 - 2 Fiorentina
0-1 Yacine Adli ('11)
0-2 Lucas Beltrán ('17)
1-2 Adam Marusic ('92)

Albert Guðmundsson var í byrjunarliði Fiorentina sem heimsótti Lazio í efstu deild ítalska boltans í kvöld.

Fiorentina hafði ekki unnið deildarleik síðan 8. desember og tók forystuna snemma leiks þegar Yacine Adli skoraði með góðu skoti eftir fyrirgjöf frá Robin Gosens.

Sex mínútum síðar tvöfaldaði Lucas Beltrán forystuna með skalla eftir góða fyrirgjöf frá Dodô. Albert var hársbreidd frá því að skora glæsimark og koma Fiorentina þremur mörkum yfir en boltinn hafnaði í stönginni.

Lazio átti engin svör í fyrri hálfleik og skapaði sér lítið til að minnka muninn. Heimamenn gerðu tvöfalda skiptingu í leikhlé en hún skilaði ekki miklu. Leikmenn Fiorentina vörðust afar vel en tókst þó ekki að halda hreinu, því varnarmaðurinn Adam Marusic minnkaði muninn á 92. mínútu. Pedro átti stangarskot fyrir heimamenn í Lazio með síðustu spyrnu leiksins og lokatölur urðu 1-2.

Mönnum var heitt í hamsi, báðir stjórar fengu rautt og einnig Yacine Adli eftir að hann hafði verið tekinn af velli.

Alberti var skipt útaf á 77. mínútu leiksins en afar langþráður sigur er staðreynd, fyrsti deildarsigur liðsins síðan 8. desember, og klifrar Fiorentina upp í sjötta sæti Serie A deildarinnar. Þar er liðið með 36 stig eftir 21 umferð, aðeins þremur stigum frá Lazio sem situr í Meistaradeildarsæti.

Albert hefur verið að fá mikinn spiltíma eftir endurkomu úr meiðslum en á enn eftir að finna sama gír og hann var í hjá Genoa.
Athugasemdir
banner