Spænski varnarmaðurinn Dean Huijsen er farinn að vekja áhuga stórliða eftir stórgóða frammistöðu hans með Bournemouth síðustu mánuði, en Fabrizio Romano segir hann með klásúlu í samningnum.
Huijsen er 19 ára gamall miðvörður sem gekk í raðir Bournemouth frá Juventus síðasta sumar.
Með hann í vörninni hefur Bournemouth aðeins tapað einum leik, sem var gegn toppliði Liverpool í byrjun leiktíðar.
Bournemouth hefur unnið sex og gert fjögur jafntefli í síðustu tíu leikjum þar sem hann hefur byrjað og þá haldið hreinu í átta leikjum.
Romano segir að Huijsen sé með kaupákvæði í samningnum sem mun virkjast í sumar og alveg ljóst að baráttan verður mikil um þennan efnilega varnarmann.
Chelsea er sagt mjög hrifið af Huijsen og setur það hann ofarlega á lista fyrir sumargluggann en Bayern München hefur einnig verið upplýst um stöðu leikmannsins.
Huijsen er hluti af U21 árs landsliði Spánar en hann á einnig leiki að baki með yngri landsliðum Hollands. Báðir foreldrar leikmannsins koma frá Hollandi, en þau fluttu til Spánar þegar Dean var fimm ára gamall og er því spænskur ríkisborgari.
Athugasemdir