Unai Emery, þjálfari Aston Villa, svaraði spurningum eftir 1-1 jafntefli Aston Villa gegn West Ham United í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Aston Villa tók forystuna snemma leiks en West Ham var sterkari aðilinn og jafnaði í síðari hálfleik. Hamrarnir komust nálægt því að krækja í sigur en tókst ekki.
Villa var án Pau Torres í leiknum og missti Tyrone Mings í meiðsli eftir 38 mínútur í dag. Ian Maatsen kom inn í staðinn og fór í vinstri bakvörð, en í staðinn spilaði vinstri bakvörðurinn Lucas Digne restina af leiknum sem miðvörður.
„Við vorum ekki nógu ferskir til að spila allan leikinn af nægilega miklum krafti, þeir sköpuðu sér eitt eða tvö færi og jafntefli er sanngjörn niðurstaða. Við höfum verið að glíma við meiðslavandræði í vörninni og þessi meiðsli hjá Tyrone Mings hjálpa ekki. Við erum ekki með annan miðvörð til að fylla í skarðið eftir að Diego Carlos fór en Lucas Digne hjálpaði okkur mikið í dag," sagði Emery.
„Við höfum byrjað seinni hluta tímabilsins á tveimur sigrum og tveimur jafnteflum. Við erum metnaðarfullir og viljum gera meira. Við verðum að halda áfram á okkar striki og setja alla einbeitingu á næsta leik sem er á miðvikudaginn.
„Við þurfum að nýta vikuna til að fá nokkra leikmenn úr meiðslum og vonandi gera eitthvað fyrir lok félagaskiptagluggans. Við verðum að bæta okkur ef við viljum spila áfram í Evrópu."
Kólumbíski framherjinn Jhon Durán kom inn af bekknum í jafnteflinu en West Ham hefur verið að reyna að kaupa hann í janúar.
„Jhon Durán er okkar leikmaður og ég vil halda honum hjá félaginu. Svona kringumstæður hjálpa leikmönnum auðvitað ekki að halda einbeitingu."
Aston Villa spilar næst heimaleik við Celtic í Meistaradeild Evrópu og getur svo gott sem tryggt sér sæti meðal 8 efstu liða deildarinnar með sigri.
Athugasemdir