Joshua Kimmich, leikmaður Bayern München í Þýskalandi, er orðinn þreyttur á endalausum spurningum fjölmiðla um framtíðina, en hann hefur síðustu daga verið orðaður við spænska stórliðið Real Madrid.
Kimmich, sem er uppalinn í Stuttgart, hefur spilað síðustu tíu árin með Bayern München.
Samningur hans rennur út eftir tímabilið og hefur hann áður sagt að hann væri til í að reyna fyrir sér utan Þýskalands.
Barcelona, Liverpool, Manchester City, Paris Saint-Germain og Real Madrid eru öll sögð fylgjast með stöðunni, en leikmaðurinn er sjálfur orðinn leiður á því að þurfa að upplýsa fjölmiðla um stöðuna.
„Ef ég á að vera hreinskilinn þá get ég ekki staðið upp á þriggja daga fresti og gefið ykkur uppfærslu. Hún mun koma á einhverjum tímapunkti, en ég ætla ekki að upplýsa ykkur um stöðuna á þriggja daga fresti,“ sagði Kimmich við BILD.
Christoph Freund, íþróttastjóri Bayern, segist bjartsýnn á að Kimmich geri nýjan samning við félagið.
„Ég er mjög bjartsýnn á að Kimmich muni á endanum ákveða að vera áfram hjá Bayern,“ sagði Freund við Sky í Þýskalandi.
Athugasemdir