Man Utd heldur áfram að reyna við Dorgu, Neymar er til í að fórna launum til að komast til Santos og Aston Villa hefur áhuga á varnarmanni Chelsea
   sun 26. janúar 2025 18:18
Ívan Guðjón Baldursson
Helgi Fróði byrjaði í sigri - Milos í undanúrslit
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Getty Images
Mynd: Al Wasl
Það fóru nokkrir leikir fram víða um Evrópu í dag og komu Íslendingar við sögu á ýmsum stöðum.

Tveir komu við sögu í Hollandi þar sem Helgi Fróði Ingason var í byrjunarliði Helmond í 2-1 sigri gegn Jong AZ Alkmaar í næstefstu deild. Helmond er að berjast um umspilssæti til að geta tekið þátt í efstu deild á næsta ári.

Rúnar Þór Sigurgeirsson lék allan leikinn í liði Willem II sem tapaði gegn Waalwijk í efstu deild á meðan Nökkvi Þeyr Þórisson horfði á liðsfélaga sína í Sparta Rotterdam vinna frækinn sigur á útivelli gegn sterku liði AZ Alkmaar. Nökkvi var ónotaður varamaður en þetta var gríðarlega mikilvægur sigur fyrir Sparta, sem er í fallsæti.

Willem er í neðri hluta deildarinnar með 23 stig eftir 20 umferðir - sex stigum fyrir ofan Sparta.

Í B-deild ítalska boltans fékk Birkir Bjarnason að spreyta sig í tapleik hjá Brescia á heimavelli gegn Catanzaro. 36 ára gamall Birkir fékk að spila síðustu 10 mínútur leiksins en tókst ekki að koma í veg fyrir naumt tap. Brescia er þremur stigum fyrir ofan fallsvæðið erftir þetta tap.

Damir Muminovic var í tapliði DPMM gegn Tanjong Pagar í botnslag efstu deildar í Singapúr. DPMM er þar í næstneðsta sæti með 21 stig eftir jafnmargar umferðir.

Lærisveinar Milos Milojevic í Al-Wasl unnu þá gegn Ittihad Kalba í forsetabikarnum í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Al-Wasl er komið í undanúrslit eftir þennan sigur.

Mikael Neville Anderson var í byrjunarliði Århus GF sem sigraði gegn Philadelphia Union í æfingaleik.

Hólmbert Aron Friðjónsson var að lokum ónotaður varamaður í jafntefli hjá Preussen Münster gegn Hannover í næstefstu deild þýska boltans. Münster er þar í fallbaráttu með 20 stig eftir 19 umferðir þökk sé góðu gengi í síðustu leikjum.

Helmond 2 - 1 Jong AZ

Waalwijk 2 - 0 Willem II

AZ Alkmaar 1 - 2 Sparta Rotterdam

Brescia 2 - 3 Catanzaro

Tanjong Pagar 3 - 0 DPMM

Al-Wasl 2 - 0 Ittihad Kalba

AGF 2 - 1 Philadelphia Union

Hannover 2 - 2 Preussen Munster

Athugasemdir
banner
banner