Thomas Frank var kátur eftir góðan sigur Brentford á útivelli gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Bryan Mbeumo tók forystuna fyrir Brentford á útivelli með marki úr vítaspyrnu og tvöfaldaði Kevin Schade forystuna á 80. mínútu, áður en Romain Esse kom inn af bekknum og minnkaði muninn fyrir Palace. Lokatölur urðu þó 1-2 fyrir Brentford, sem er um miðja deild með 31 stig eftir 23 umferðir.
„Þetta eru afar dýrmæt stig fyrir okkur, á erfiðum útivelli gegn sterkum andstæðingum. Ég er stoltur af strákunum sem mættu til leiks með hárrétt hugarfar. Hugarfarið skiptir mestu máli, persónuleiki liðsins. Strákarnir voru frábærir," sagði Frank.
„Við vörðumst mjög vel og gáfum ekki mörg færi á okkur. Andstæðingarnir eru með mjög hæfileikaríka sóknarlínu og strákarnir gerðu vel að halda þeim í skefjum. Við áttum skilið að sigra þennan leik, gegn andstæðingum sem eru á góðu skriði og voru bara búnir að tapa tveimur af síðustu þrettán leikjum sínum - báðum gegn Arsenal!
„Crystal Palace er með frábært lið og þetta er mjög vel rekið félag sem hefur gert flotta hluti síðustu 10 ár. Við getum tekið þá til fyrirmyndar á ýmsum sviðum."
Crystal Palace er aðeins fjórum stigum á eftir Brentford á stöðutöflunni eftir gott gengi síðustu tvo mánuði.
Athugasemdir