Tveimur síðustu leikjum kvöldsins er lokið í spænska boltanum þar sem Barcelona gjörsamlega rúllaði yfir Valencia á meðan Athletic Bilbao gerði markalaust jafntefli.
Börsungar voru komnir í fjögurra marka forystu á fyrstu 24 mínútunum gegn Valencia, þar sem Frenkie de Jong, Ferran Torres, Raphinha og Fermín López skoruðu eitt mark hver.
López bætti fimmta markinu svo við í uppbótartíma fyrri hálfleiks svo staðan var orðin 5-0 eftir ótrúlegan fyrri hálfleik.
Hugo Duro minnkaði muninn fyrir Valencia í síðari hálfleik en Robert Lewandowski kom inn af bekknum skömmu síðar og skoraði sjötta mark heimamanna á 66. mínútu, eftir undirbúning frá López.
Cesar Tarrega skoraði að lokum sjálfsmark til að gera sjöunda og síðasta mark Börsunga í 7-1 stórsigri.
Barca er í þriðja sæti spænsku deildarinnar, sex stigum á eftir toppliði Real Madrid og þremur stigum á eftir Atlético Madrid sem situr í öðru sæti.
Valencia er í næstneðsta sæti með 16 stig eftir 21 umferð. Þetta var sjötti leikur Carlos Corberán við stjórnvölinn hjá Valencia en liðið hafði verið að gera flotta hluti á fyrstu vikunum undir hans stjórn, allt þar til í kvöld.
Athletic Bilbao er í fjórða sæti, aðeins tveimur stigum á eftir Barca, eftir að hafa gert markalaust jafntefli við Leganés.
Athletic sótti mikið og fékk nokkur dauðafæri en tókst ekki að nýta þau.
Barcelona 7 - 1 Valencia
1-0 Frenkie de Jong ('3 )
2-0 Ferran Torres ('8 )
3-0 Raphinha ('14 )
4-0 Fermin Lopez ('24 )
5-0 Fermin Lopez ('45 )
5-1 Hugo Duro ('59 )
6-1 Robert Lewandowski ('66 )
7-1 Cesar Tarrega ('75, sjálfsmark)
Athletic 0 - 0 Leganes
Athugasemdir