fim 25. nóvember 2021 12:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Víkingar stefna á að kynna tvo leikmenn á morgun
Karl Friðleifur Gunnarsson var á láni hjá Víkingi í sumar og varð Íslands- og bikarmeistari.
Karl Friðleifur Gunnarsson var á láni hjá Víkingi í sumar og varð Íslands- og bikarmeistari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Karl Friðleifur Gunnarsson er búinn að skrifa undir samning við Víking og einungis á eftir að tilkynna um kaup á honum frá Breiðabliki.

„Ég held að planið sé að tilkynna hann á morgun ásamt vonandi einum í viðbót," sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, við Fótbolta.net.

Arnar neitaði því að seinni leikmaðurinn væri Valgeir Valgeirsson, leikmaður HK, en Valgeir hefur mikið verið orðaður við Víking.

Er hluti af samkomulaginu við Breiðablik að Blikar fái prósentu af sölu á Kalla ef hann fer erlendis?

„Ég er ekki alveg klár á því en mér finnst það ekkert ólíklegt. Ef að svo er þá finnst mér það bara sanngjarnt."

Arnar sagðist þá aðspurður að Víkingar væru í viðræðum við Breiðablik um að fá Davíð Örn Atlason aftur í Víkina. Það hefur verið talað um að Víkingar gætu mögulega verið að hugsa Davíð sem miðvörð í sínu kerfi.

„Eiginlega ekki, það getur vel verið að við verðum í miðvarðaveseni framan af vetri þar sem Kyle McLagan kemur ekki fyrr en í janúar. Þá þurfa menn að spila aðrar stöður en þeir eru vanir að spila. Fyrir mér er Davíð fyrst og fremst bakvörður/vængbakvörður."

Býstu við því að Davíð endi í Víkingi?

„Já, ég held að viðræðurnar gangi mjög vel. Ég held að það sé vilji hjá öllum aðilum að klára þær viðræður." sagði Arnar.
Athugasemdir
banner
banner