AS Roma er búið að styrkja leikmannahópinn sinn með tveimur nýjum leikmönnum fyrir síðustu viku janúargluggans.
Devyne Rensch er kominn til félagsins frá Ajax en hann er 22 ára gamall og skrifar undir fjögurra og hálfs árs samning í ítölsku höfuðborginni.
Roma greiðir aðeins um 5 milljónir evra fyrir þennan fjölhæfa varnarmann, sem er hægri bakvörður að upplagi en getur leikið í öllum stöðum í varnarlínunni.
Rensch er talsvert meira heldur en 5 milljóna virði en samningur hans við Ajax hefði runnið út í júní og því ákvað félagið að selja hann.
Rensch hefur verið lykilmaður upp yngri landslið Hollands og á tvo A-landsleiki að baki.
Þá er Pierluigi Gollini einnig kominn frá Atalanta. Gollini verður varamarkvörður hjá Roma og kemur til félagsins fyrir Mat Ryan sem er farinn til Lens í Frakklandi. Mile Svilar er aðalmarkvörður Rómverja.
Gollini, sem hefur meðal annars leikið fyrir Aston Villa og Tottenham á ferlinum, gerir tveggja og hálfs árs samning við Roma.
Athugasemdir