Unai Emery viðurkenndi áhuga Aston Villa á argentínska miðverðinum Juan Foyth eftir 1-1 jafntefli gegn West Ham United í ensku úrvalsdeildinni í gær.
Tyrone Mings fór meiddur af velli og þurfti vinstri bakvörðurinn Lucas Digne að klára leikinn sem miðvörður vegna meiðslavandræða í varnarlínu Villa, sem seldi Diego Carlos til Fenerbahce á dögunum.
Emery hefur áhuga á Foyth, sem er 27 ára gamall hægri bakvörður sem getur einnig spilað í miðverði. Emery þekkir vel til Argentínumannsins eftir að hafa þjálfað hann í herbúðum Villarreal frá 2020 til 2022.
Foyth var hjá Tottenham áður en hann var keyptur til Villarreal og er með 18 landsleiki að baki fyrir Argentínu.
„Stjórnin er að leita að réttum leikmanni til að fylla í skarðið. Auðvitað þekki ég Juan Foyth vel eftir okkar tíma saman, hann er nákvæmlega sú tegund af leikmanni sem við þurfum í leikmannahópinn," sagði Emery eftir jafnteflið gegn Hömrunum.
„Janúarglugginn er ekki auðveldur. Við vildum ekki missa Diego Carlos en hann vildi fara og á endanum hleyptum við honum burt. Núna þurfum við að finna verðugan leikmann til að fylla í skarðið."
Athugasemdir