PSG í baráttuna um Trent - Liverpool hefur áhuga á Dedic - Perez undirbýr stjóraskipti
   lau 26. október 2024 18:19
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Valur tryggði Evrópusætið með flugeldasýningu
Valsmenn eru á leið í Evrópu
Valsmenn eru á leið í Evrópu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir Már Sævarsson var að spila sinn síðasta leik
Birkir Már Sævarsson var að spila sinn síðasta leik
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hilmar Árni þakkaði fyrir sig með marki
Hilmar Árni þakkaði fyrir sig með marki
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur mun spila í Evrópukeppni á næsta ári en þetta varð ljóst eftir 6-1 stórsigur liðsins á ÍA í lokaumferð Bestu deildar karla á Hlíðarenda í dag.

Valsmenn voru með tveggja stiga forystu á Stjörnuna í baráttu um þriðja sætið, sem er síðasta sætið sem gefur þátttökurétt í Evrópukeppni.

Leikurinn var þýðingarmikill fyrir þá Arnór Smárason og Birki Má Sævarsson, sem voru báðir að spila síðasta leikinn á ferlinum.

Valsarar ákváðu að gefa Birki fullkomna kveðjugjöf. Sigurður Egill Lárusson skoraði með glæsilegu skoti í samskeytin nær á 5. mínútu eftir að Skagamenn höfðu tapað boltanum fyrir utan vítateig sinn.

Patrick Pedersen tvöfaldaði forystu heimamanna á 12. mínútu eftir laglega fyrirgjöf frá Sigurði.

Skagamenn náðu að bíta frá sér eftir hálftímaleik. Jón Gísli Eyland átti aukaspyrnu sem Frederik Schram kýldi út í teiginn en þó ekki lengra en á Guðfinn Þór Leósson sem lét vaða inn í vel mannaðan teig Vals, boltinn þar af varnarmanni og í netið.

Undir lok hálfleiksins skoruðu Valsarar tvö mörk. Tryggvi Hrafn Haraldsson fékk boltann fyrir utan vítateig ÍA og skaut boltanum í fjærhornið. Á markamínútunni gerði Albin Skoglund fjórða markið er hann hirti frákast eftir hornspyrnu Gylfa Þórs Sigurðssonar.

Valsmenn voru með öll tök á leiknum og bættu við tveimur mörkum á síðasta stundarfjórðungi leiksins.

Gylfi Þór Sigurðsson tók hornspyrnu sem var skilað aftur til hans, þannig landsliðsmaðurinn keyrði í átt að teignum og skoraði. Mínútu síðar rak Lúkas Logi Heimisson síðasta naglann í kistu Skagamanna.

Jónatan Ingi Jónsson slapp í gegn, lagði boltann til hliðar á Lúkas og eftirleikurinn auðveldur.

Valsmenn tryggja sér 3. sæti deildarinnar með 44 stig og fara í Evrópukeppni á næsta ári. Skagamenn taka 5. sæti deildarinnar með 37 stig

FH-ingar enda tímabilið á sigri

FH-ingar komu nokkuð pressulausir inn í leikinn enda ekki mikið í húfi fyrir liðið. Það átti ekki möguleika á að komast í Evrópu og var þetta aðeins spurning um að enda mótið á góðum nótum.

Stjarnan aftur á móti var í baráttu um Evrópusæti en þurfti að treysta á að Valur myndi tapa stigum.

Hilmar Árni Halldórsson, sem var að spila sinn síðasta leik fyrir Stjörnuna, skoraði á 32. mínútu og hélt vonum Stjörnunnar á lífi, en Sigurður Bjartur Hallsson jafnaði sex mínútum síðar.

Emil Atlason kom Stjörnumönnum í forystu aðeins mínútu síðar eftir að Árni Snær Ólafsson tók langt spark fram völlinn á Emil sem slapp í gegn og skoraði.

Áður en hálfleikurinn var úti jafnaði Kjartan Kári Halldórsson með snyrtilegu marki.

FH-ingar byrjuðu síðari hálfleikinn sterkt en náðu ekki að koma boltanum inn fyrir línuna. Stjörnumenn unnu sig betur inn í leikinn eftir því sem á leið og náðu í sigurmarkið þegar skammt var til leiksloka.

Ólafur Guðmundsson varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net. Undir lok lokin fengu Hilmar Árni og Daníel Laxdal báðir heiðursskiptingu, en Daníel var einnig að leika sinn síðasta leik fyrir Stjörnumenn.

Stjarnan gerði sitt en það gerði Valur líka. Stjarnan rétt missti því af Evrópusæti og hafnar í 4. sæti með 42 stig en FH í neðsta sæti meistarariðilsins með 34 stig.

Tilfinningarík lokaumferð sem er þó ekki lokið því á morgun fer fram úrslitaleikur Íslandsmótsins er Víkingur tekur á móti Breiðablik í Víkinni.

Valur 6 - 1 ÍA
1-0 Sigurður Egill Lárusson ('5 )
2-0 Patrick Pedersen ('12 )
2-1 Steinar Þorsteinsson ('31 )
3-1 Tryggvi Hrafn Haraldsson ('39 )
4-1 Albin Skoglund ('43 )
5-1 Gylfi Þór Sigurðsson ('78 )
6-1 Lúkas Logi Heimisson ('79 )
Lestu um leikinn


Stjarnan 3 - 2 FH
1-0 Hilmar Árni Halldórsson ('32 )
1-1 Sigurður Bjartur Hallsson ('38 )
2-1 Emil Atlason ('39 )
2-2 Kjartan Kári Halldórsson ('45 )
2-3 Ólafur Guðmundsson ('85 , sjálfsmark)
Lestu um leikinn
Athugasemdir
banner