PSG í baráttuna um Trent - Liverpool hefur áhuga á Dedic - Perez undirbýr stjóraskipti
banner
   sun 27. október 2024 20:36
Brynjar Ingi Erluson
Breiðablik Íslandsmeistari árið 2024
Blikar eru Íslandsmeistarar í þriðja sinn
Blikar eru Íslandsmeistarar í þriðja sinn
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Úr leik Víkings og Breiðabliks
Úr leik Víkings og Breiðabliks
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Stuðningsmenn Blika fengu alvöru skemmtun í Víkini
Stuðningsmenn Blika fengu alvöru skemmtun í Víkini
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur R. 0 - 3 Breiðablik
0-1 Ísak Snær Þorvaldsson ('37 )
0-2 Ísak Snær Þorvaldsson ('50 )
0-3 Aron Bjarnason ('80 )
Lestu um leikinn

Lestu um leikinn: Víkingur R. 0 -  3 Breiðablik

Breiðablik er Íslandsmeistari árið 2024 eftir að hafa unnið Víking 3-0, í hreinum úrslitaleik um titilinn í Víkinni í kvöld. Ísak Snær Þorvaldsson skoraði tvö og Aron Bjarnason eitt til að skila þriðja Íslandsmeistaratitlinum í Kópavog.

Fyrstu mínúturnar einkenndust af mikilli baráttu og stressi. Liðin náðu ekki miklu uppspili og voru lítil brot hér og þar á vellinum, en engin dauðafæri.

Blikarnir fengu fyrstu tvö færin. Blikar komu hátt í pressuna og átti Davíð Ingvarsson hörkuskot fyrir utan en Ingvar Jónsson varði frábærlega. Blikar héldu boltanum og náði Höskuldur Gunnlaugsson að koma boltanum út á Andra Rafn Yeoman en aftur var Ingvar vandanum vaxinn í markinu.

Pressa Blika var til fyrirmyndar og gáfu þeir Víkingum lítinn tíma til þess að spila boltanum. Víkingar reyndu oft að koma löngum boltum á Nikolaj Hansen, en Blikar beittu ítrekað bakhrindingum sem Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, dómari leiksins, hafði litla þolinmæði fyrir.

Þegar um fimmtán mínútur voru liðnar lentu þeir Erlingur Agnarsson og Kristinn Jónsson í harkalegu samstuði þegar þeir fóru upp í skallabolta. Kristinn fékk hausinn á Erlingi í kinnina á sér og gat ekki haldið áfram. Kristinn Steindórsson kom inn í hans stað.

Danijel Dejan Djuric átti fyrsta alvöru skot Víkinga eftir 26 mínútur er boltinn datt fyrir hann rétt fyrir utan teiginn, en skot hans framhjá markinu.

Ellefu mínútum síðar tóku Blikar forystuna. Aron Bjarnason kom með fyrirgjöf inn á teiginn og eftir smá klaufaskap í varnarleik Víkinga náði Ísak Snær Þorvaldsson að vinna boltann og pota honum undir Ingvar Jónsson í markinu.

Í annað sinn í leiknum kom harkalegt samstuð er Aron Elís Þrándarson og Höskuldur voru haus í haus. Báðir gátu haldið leik áfram.

Staðan 1-0 fyrir Blikum í hálfleik. Lítil brot og stöðvanir einkenndu svolítið fyrri hálfleikinn, en Blikar brutu sautján sinnum á Víkingum, sem brutu aðeins tvisvar á Kópavogsliðinu. Annars fagmannlegur hálfleikur hjá Blikum sem voru meira ógnandi framan af.

Víkingar mættu fljúgandi inn í síðari hálfleikinn. Gísli Gottskálk náði að stinga sér á milli varnarmanna í byrjun hans, en féll við og boltanum hreinsað í hornspyrnu.

Gunnar Vatnhamar var nálægt því að jafna eftir hornspyrnuna en hann stangaði henni í stöng. Mun opnara en í þeim fyrri.

Nokkrum mínútum síðar bætti Ísak Snær við öðru marki sínu eftir mikið skvaldur. Damir Muminovic kom boltanum fyrir markið og datt hann síðan fyrir Höskuld sem átti hörkuskot sem fór af varnarmanni og til Ísaks sem skoraði af stuttu færi.

Ísak og restin af Blikaliðinu fögnuðu með stuðningsmönnum næstu mínútuna áður en leikurinn fór aftur af stað.

Blikar voru í leit að þriðja markinu. Fyrst féll Höskuldur við í teignum, en boltinn datt þaðan fyrir Ísak sem fékk dauðafæri til að fullkomna þrennuna en Ingvar varði frábærlega.

Aron Elís gat minnkað muninn fyrir Víkinga er hann fékk boltann í miðjum teignum, en Blikar náðu að setja afturendann í skotið og bægja hættunni frá.

Víkingar fóru að setja meiri þunga í pressuna og eiginlega ótrúlegt að liðið hafi ekki tekist að minnka muninn. Danijel Dejan átti skalla í þverslá eftir fyrirgjöf Karls Friðleifs og þá átti Aron Elís skalla rétt framhjá stuttu síðar.

Hlutirnir voru ekki að falla með heimamönnum. Sölvi Geir Ottesen, sem stýrði Víkingum í fjarveru Arnars Gunnlaugssonar, gerði nokkrar breytingar þegar fimmtán mínútur voru eftir. Jón Guðni Fjóluson og Viktor Örlygur Andrason komu inn fyrir Danijel Dejan og Gísla Gottskálk.

Blikar skrifuðu nafn sitt á Bestu deildar-skjöldinn á 80. mínútu er Aron Bjarnason gerði út um leikinn með þriðja markinu. Kristinn Steindórs átti magnaða vippu yfir vörn Víkinga á Aron sem lyfti honum yfir Ingvar í markinu. Leiknum svo gott sem lokið og Víkingar gjörsigraðir á heimavelli.

Frábær frammistaða hjá Blikum. Þeir þurftu sigur og sóttu hann nokkuð örugglega. Blikar hefðu meira að segja getað bætt við fjórða markinu í uppbótartíma en Víkingar náðu að koma í veg fyrir það á síðustu stundu.

Þriðji Íslandsmeistaratitillinn í sögu Blika en síðast unnu þeir árið 2022 með Óskar Hrafn Þorvaldsson í brúnni. Halldór Árnason, aðstoðarmaður Óskars, tók við Blikum á síðasta ári. Allt tímabilið voru Blikar að elta Víking, en í síðustu umferðunum náðu Blikar að jafna Víking að stigum og var þetta hálfgerð störukeppni eftir það.

Blikar unnu fjóra leiki og gerðu eitt jafntefli eftir tvískiptingu og eru verðskuldað meistarar í ár. Þetta er aftur á móti fyrsta titlalausa tímabil Víkinga síðan 2018.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner