PSG í baráttuna um Trent - Liverpool hefur áhuga á Dedic - Perez undirbýr stjóraskipti
banner
   sun 27. október 2024 15:34
Elvar Geir Magnússon
ÍA sagt hafa áhuga á tveimur leikmönnum KR - „Ég get ekki svarað því“
Axel Óskar Andrésson í leik gegn ÍA.
Axel Óskar Andrésson í leik gegn ÍA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég get ekki svarað því. Ég veit ekki neitt um það," sagði Dean Martin aðstoðarþjálfari ÍA þegar hann var spurður út í það hvort Skagamenn hefðu áhuga á tveimur leikmönnum KR.

Sagan segir að ÍA hafi áhuga á að fá varnarmanninn Axel Óskar Andrésson og miðjumanninn Alex Þór Hauksson. Báðir komu þeir heim úr atvinnumennsku og gengu í raðir KR fyrir þetta tímabil en hafa fengið talsverða gagnrýni, sérstaklega þegar illa gekk hjá Versturbæingum fyrir ráðninguna á Óskari Hrafni Þorvaldssyni.

Alex skoraði eitt af mörkum KR í 7-0 sigrinum gegn HK í gær en athygli vakti að hann lék sem miðvörður í leiknum.

ÍA endaði í fimmta sæti Bestu deildarinnar og var lengi í baráttu um Evrópusæti.

„Þetta er búið að vera ágætis tímabil. Væntingarnar á Akranesi eru alltaf að verða meiri og meiri og við verðum að gera betur á næsta ári. Framtíðin er björt," sagði Dean Martin að auki eftir leikinn í gær.

Viðræður í gangi við þá alla
Óskar Hrafn þjálfari KR ræddi við Fótbolta.net eftir leikinn gegn HK og var spurður út í stöðuna á þremur leikmönnum sem eru að verða samningslausir hjá KR; Aron Þórður Albertsson, Guy Smit og Atli Sigurjónsson. Verður framlengt við þá?

„Það eru viðræður í gangi við alla þessa aðila og það verður bara að koma í ljós hvað kemur út úr því," sagði Óskar. Hann hefur fengið til sín urmul leikmanna fyrir næsta tímabil g telur spennandi tíma framundan í Vesturbænum.

„Við teljum það, við teljum okkur vera á leiðinni að búa til öflugan hóp þar sem hver og einn leikmaður getur ýtt hinum áfram og búið til alvöru samkeppni með þessum kjarna KR-inga. Það er mikilvægt að vera með KR-inga og frábært að fá Theodór Elmar sem aðstoðarþjálfara. Ég hlakka til að byrja aftur."
Athugasemdir
banner
banner