PSG í baráttuna um Trent - Liverpool hefur áhuga á Dedic - Perez undirbýr stjóraskipti
   sun 27. október 2024 22:01
Brynjar Ingi Erluson
Elías fagnaði nýjum samningi með því að halda hreinu - Daníel Leó meiddist
Elías Rafn var frábær í marki Midtjylland
Elías Rafn var frábær í marki Midtjylland
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Daníel Leó meiddist í síðari hálfleik
Daníel Leó meiddist í síðari hálfleik
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elías Rafn Ólafsson, markvörður Midjtylland, fagnaði nýjum samningi með því að halda hreinu í 2-0 sigrinum á AGF í dönsku úrvalsdeildinni í dag.

Elías framlengdi samning sinn við Midtjylland í gær en hann er nú samningsbundinn félaginu til 2029.

Frammistaða hans hefur verið frábær á tímabilinu en hann var að halda hreinu í sjöunda sinn í öllum keppnum er liðið vann AGF, 2-0, í dag.

Hann var einn af bestu mönnum liðsins og þá var Mikael Neville Anderson sömuleiðis einn af bestu mönnum AGF en hann lék allan leikinn fyrir gestina.

Midtjylland er á toppnum með 27 stig en AGF í 3. sæti með 23 stig.

Daníel Leó Grétarsson var í byrjunarliði SönderjyskE sem tapaði fyrir Viborg, 4-2, í dag. Landsliðsmiðvörðurinn náði þó ekki að spila allan leikinn fyrir SönderjyskE, en hann fékk högg í andlitið og gat ekki haldið leik áfram.

Það er auðvitað vitað að Kristall Máni Ingason verður ekki meira með SönderjyskE á þessu ári en liðið er í 10. sæti með 11 stig.

Daníel Freyr Kristjánsson var í byrjunarliði Fredericia sem vann 4-1 sigur á Hobro í dönsku B-deildinni. Daníel, sem er á láni frá Midtjylland, var með bestu mönnum Fredericia í dag en liðið er í öðru sæti með 28 stig og í baráttu um að komast upp.

Birnir Snær Ingason og Gísli Eyjólfsson komu báðir inn af bekknum hjá Halmstad sem lagði Häcken að velli, 1-0, í sænsku úrvalsdeildinni. Halmstad er í 13. sæti með 30 stig þegar tvær umferðir eru eftir af deildinni.

Brynjar Ingi Bjarnason hafði betur gegn Hilmi Rafn Mikaelssyni er Ham/Kam vann Kristiansund, 1-0. Brynjar spilaði allan tímann í vörn Ham/Kam en Hilmir Rafn kom inn af bekknum hjá Kristiansund. Ham/Kam er í 8. sæti með 32 stig en Kristiansund í 10. sæti með 30 stig.

Anton Logi Lúðvíksson kom inn af bekknum á 77. mínútu er Haugesund tapaði fyrir Molde, 3-0, í norsku úrvalsdeildinni. Haugesund er í fallsæti með 24 stig.

Stefán Ingi Sigurðarson spilaði síðasta hálftímann er Sandefjord vann KFUM Oslo. Staðan var 1-0 fyrir Oslo þegar Stefán kom inn á og tókst honum og liðsfélögum hans að snúa taflinu við og taka sigur. Sandefjord er í 13. sæti með 28 stig.

Sveinn Aron Guðjohnsen spilaði síðustu mínúturnar í 2-1 tapi Sarpsborg gegn Viking. Sarpsborg er í 12. sæti með 29 stig.

Panathinaikos er í áttunda sæti eftir níu leiki eftir að liðið gerði 1-1 jafntefli við Aris. Sverrir Ingi Ingason lék allan leikinn í vörn Panathinaikos, en Hörður Björgvin Magnússon var utan hóps.

Rúnar Þór Sigurgeirsson og hans menn í Willem II töpuðu fyrir Ajax, 1-0, í hollensku úrvalsdeildinni. Rúnar var í byrjunarliði Willem, en Kristian Nökkvi Hlynsson ekki með Ajax vegna meiðsla.

Ajax er í 3. sæti með 19 stig en Willem II í 10. sæti með 12 stig.

Andri Lucas Guðjohnsen lék þá síðasta hálftímann í 2-0 tapi Gent gegn Genk í belgísku úrvalsdeildinni. Gent er í 5. sæti með 18 stig, tíu stigum frá toppliði Genk.


Athugasemdir
banner
banner
banner