PSG í baráttuna um Trent - Liverpool hefur áhuga á Dedic - Perez undirbýr stjóraskipti
   sun 27. október 2024 06:00
Brynjar Ingi Erluson
Ancelotti: Síðast þegar þetta gerðist þá unnum við La Liga og Meistaradeildina
Mynd: EPA
Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid, segir að liðið sé sært eftir 4-0 tapið gegn erkifjendunum í Barcelona í gær.

Madrídingar spiluðu ágætis fyrri hálfleik en mættu ekki í þann síðari.

Robert Lewandowski skoraði tvö snemma í síðari hálfleiknum og þá bættu þeir Lamine Yamal og Raphinha við mörkum undir lokin.

„Ég sé ekki eftir því hvernig við settum leikinn upp. Ég hef verið í þessum bransa í 48 ár, þannig ég hef ekki rangt fyrir mér þegar ég segi að fyrri hálfleikurinn hafi verið góður. Þetta er mjög ólíkt tapinu gegn Lille því við vorum virkilega slakir þann daginn, en við börðumst í þessum leik.“

„Við erum særðir og þetta er mjög erfitt augnablik, en tímabilið er langt og við munum ekki gefast upp.“

„Síðast þegar við töpuðum 4-0 gegn Barcelona þá unnum við La Liga og Meistaradeildina,“
sagði Ancelotti.

Áhugavert atvik kom upp á hliðarlínunni er þjálfarateymi Börsunga fagnaði marki, en Ancelotti kallaði Hansi Flick, þjálfara Barcelona, til sín og kvartaði yfir hegðun þeirra.

„Hvað gerðist milli mín og Hansi Flick? Það var ekkert vandamál milli okkar, en einn af aðstoðarmönnum hans hegðaði sér ekki eins og herramaður í fögnuðinum. Ég sagði honum það og við vorum sammála,“ sagði Ancelotti.
Athugasemdir
banner