PSG í baráttuna um Trent - Liverpool hefur áhuga á Dedic - Perez undirbýr stjóraskipti
   sun 27. október 2024 10:00
Brynjar Ingi Erluson
Fertugur Guzan átti stórleik gegn Messi
Brad Guzan verst gegn Lionel Messi
Brad Guzan verst gegn Lionel Messi
Mynd: Getty Images
Brad Guzan, markvörður Atlanta United í MLS-deildinni, átti einn besta leik sinn á ferlinum er hann mætti Inter Miami í 16-liða úrslitum MLS-bikarsins um helgina.

Messi og félagar í Inter Miami urðu á dögunum deildarmeistarar í MLS-deildinni og settu nýtt stigamet.

Liðið fékk þar að auki farseðil á HM félagsliða sem fer fram í Bandaríkjunum á næsta ári.

Um helgina mættust Inter Miami og Atlanta United í fyrsta leik liðanna í 1. umferð MLS-bikarsins, sem er úrslitakeppni deildarinnar, en Inter MIami hafði betur, 2-1.

Luis Suarez og Jordi Alba skoruðu mörk Inter Miami, en Guzan hélt Atlanta inn í leiknum með vörslum sínum.

Guzan, sem er fertugur, er þekktastur fyrir tíma sinn hjá Aston Villa, Hull og Middlesbrough á Englandi. Hann lék 144 leiki í úrvalsdeildinni með Villa, en snéri síðan aftur til Bandaríkjanna árið 2017.

Markvörðurinn á tæpa 600 leiki að baki fyrir félagslið og landslið, en það er óhætt að segja að einn besti leikur hans hafi komið um helgina.

Lionel Messi hefði auðveldlega getað skorað þrennu í leiknum en Guzan sá til þess að hann gerði það ekki með átta vörslur frá Messi og félögum hans.

Liðin eigast við í öðrum leik næstu helgi. Ef Inter Miami tekst að vinna þann leik þá fer liðið áfram í undanúrslit Austur-deildarinnar, en ef Atlanta hefur sigur þá munu liðin mætast í oddaleik.


Athugasemdir