Tata Martino, þjálfari Inter Miami í Bandaríkjunum, er enn þeirrar skoðunar að Lionel Messi sé besti leikmaður heims.
Messi hefur verið drifkrafturinn í liði Inter MIami sem varð deildarmeistari í MLS-deildinni á dögunum.
Messi skoraði 17 mörk og var með 10 stoðsendingar ásamt því að koma að tíu öðrum mörkum.
Í kvöld fer fram verðlaunahátíð Ballon d'Or þar sem besti leikmaður heims verður krýndur en Vinicius Junior, leikmaður Real Madrid, er talinn líklegastur til að hreppa verðlaunin. Aðeins einn leikmaður kemur til greina hjá Martino sem besti leikmaður heims.
„Ballon d'Or er eitthvað sem hefur aldrei gripið athygli mína og þá er það ekki alveg skýrt fyrir mér hvort verðlaunin séu veitt þeim besta í heimi eða besta leikmanni ársins. Vinicius Junior verðskuldar líklega að vera besti leikmaður síðasta tímabils, en ef þú spyrð mig hver sé sá besti í augnablikinu þá er svarið Messi,“ sagði Martino.
Enginn hefur unnið Ballon d’Or oftar en Messi. Hann vann síðast verðlaunin árið 2023 fyrir frammistöðu hans með argentínska landsliðinu á HM í Katar en það var áttundi gullboltinn á ferli kappans.
Athugasemdir