PSG í baráttuna um Trent - Liverpool hefur áhuga á Dedic - Perez undirbýr stjóraskipti
   lau 26. október 2024 19:31
Brynjar Ingi Erluson
Cole Campbell þreytti frumraun sína með Dortmund - Logi á skotskónum
Cole Campbell spilaði sinn fyrsta leik í dag
Cole Campbell spilaði sinn fyrsta leik í dag
Mynd: Getty Images
Logi Tómasson skoraði fyrir Strömsgodset
Logi Tómasson skoraði fyrir Strömsgodset
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lærisveinar Jóa Kalla í AB gerðu markalaust jafntefli
Lærisveinar Jóa Kalla í AB gerðu markalaust jafntefli
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Cole Campbell þreytti frumraun sína með aðalliði Borussia Dortmund er liðið tapaði fyrir Augsburg, 2-1, í þýsku deildinni í dag.

Cole, sem var á mála hjá Breiðabliki og FH hér á landi, hefur spilað með Dortmund síðustu tvö ár.

Hann kom til félagsins frá Blikum og hefur verið að gera gott mót með unglinga- og varaliði Dortmund.

Það var aðeins tímaspursmál hvenær hann fengi tækifærið með aðalliðinu, en hefur verið á bekknum í síðustu fjórum leikjum og fékk loks að spreyta sig í dag.

Cole kom inn á fyrir Donyell Malen undir lok leiks en Dortmund er í 7. sæti með 13 stig eftir átta leiki.

Logi áfram á skotskónum

Logi Tómasson skoraði annað mark Strömsgodset sem lagði Fredrikstad að velli, 2-0, í norsku úrvalsdeildinni.

Vinstri bakvörðurinn hefur verið heitur í þessum mánuði. Hann átti heiðurinn að báðum mörkum íslenska landsliðsins sem gerði 2-2 jafntefli gegn Wales og tók það með sér til Strömsgodset.

Logi gerði annað markið í dag á 55. mínútu eftir stoðsendingu Herman Stengel. Hann lék allan leikinn í dag eins og Júlíus Magnússon, sem er fyrirliði Fredrikstad. Þeir tveir spiluðu saman í Víkingi hér á landi áður en þeir héldu út í atvinnumennsku. Logi spilaði 85 mínútur í dag en fór út af eftir að hafa fengið spark í hnéð, er samkvæmt upplýsingum Fótbolta.net með takkafar á hné og upp á læri en á að vera orðinn góður fyrir næsta leik.

Fredrikstad er í 5. sæti norsku deildarinnar með 43 stig en Strömgodset í 8. sæti með 32 stig.

Birkir Bjarnason var í byrjunarliði Brescia sem tapaði fyrir Cesena, 2-0, í B-deildinni á Ítalíu. Birkir fór af velli í hálfleik en Brescia er í 8. sæti með 13 stig.

Óttar Magnús Karlsson skoraði eina mark Spal sem tapaði fyrir Arezzo, 2-1, í C-deildinni á Ítalíu. Þetta var fyrsta mark Óttars í deildinni á þessu tímabili, en Spal er að ganga í gegnum mikla erfiðleika í byrjun tímabils og er aðeins með 7 stig í 18. sæti.

Kristófer Jónsson spilaði síðustu tíu mínúturnar er Triestina tapaði fyrir Pergolettese, 1-0, í C-deildinni á Ítalíu. Stígur Diljan Þórðarson var á bekknum en kom ekkert við sögu. Triestina er í A-riðli en liðið er á botninum með 4 stig.

Brynjólfur Andersen Willumsson kom inn af bekknum hjá Groningen sem tapaði fyrir Fortuna Sittard, 1-0, í hollensku úrvalsdeildinni. Groningen er í 15. sæti deildarinnar með 9 stig.

Atli Barkarson og hans menn í Zulte-Waregem gerðu 2-2 jafntefli við Francs Borains í belgísku B-deildinni. Waregem komst í 2-0 forystu en glutraði henni niður undir lokin. Waregem er þrátt fyrir úrslitin á toppnum með 20 stig.

Jason Daði Svanþórsson kom inn á sem varamaður er Grimsby Town tapaði fyrir MK Dons, 3-1, í ensku D-deildinni. Jason lék síðustu mínútur leiksins en tókst ekki að hafa áhrif í dag. Grimsby er í 10. sæti með 21 stig.

Hlynur Freyr Karlsson lék allan tímann í miðverði er Brommapojkarna töpuðu fyrir Kalmar, 2-1, í sænsku úrvalsdeildinni. Brommapojkarna eru í 10. sæti með 34 stig þegar tvær umferðir eru eftir.

Óskar Borgþórsson lék síðasta stundarfjórðunginn í 2-0 tapi Sogndal gegn Asane í norsku B-deildinni. Sogndal er í 12. sæti með 31 stig. Sigur í næsta leik gæti mögulega tryggt Sogndal áframhaldandi veru í deildinni.

Ágúst Eðvald Hlynsson og Ægir Jarl Jónasson spiluðu báðir allan leikinn fyrir danska liðið AB sem gerði markalaust jafntefli við Skive. Liðið spilar í C-deildinni í Danmörku, en það er sem stendur í 9. sæti með 15 stig. Jóhannes Karl Guðjónsson er þjálfari AB.
Athugasemdir
banner
banner