PSG í baráttuna um Trent - Liverpool hefur áhuga á Dedic - Perez undirbýr stjóraskipti
banner
   sun 27. október 2024 15:06
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Arnór Ingvi skoraði sigurmarkið í kærkomnum sigri - Lyngby tapaði í botnslag
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Arnór Ingvi Traustason var í byrjunarliði Norrköping þegar liðið vann Varnamo í sænsku deildinni í dag en Ísak Andri Sigurgeirsson var ónotaður varamaður.


Norrköping var með 1-0 forystu í hálfleik og Arnór Ingvi bætti öðru markinu við eftir klukkutíma leik. Hann náði að teygja sig í boltann eftir fyrirgjöf úr aukaspyrnu og kom boltanum í netið. Varnamo tókst að minnka muninn en nær komust þeir ekki, 2-1 lokatölur.

Andri Fannar Baldursson og Eggert Aron Guðmundsson spiluðu síðasta stundafjórðunginn þegar Elfsborg tapaði 2-1 gegn AIK. Norrköping er í 11. sæti með 31 stig eftir 28 umferðir en liðið hafði spilað níu leiki í röð án þess að vinna í deildinni áður en það kom að sigrinum í dag. Elfsborg er í 8. sæti með 41 stig.

Sævar Atli Magnússon spilaði allan leikinn í 2-0 tapi Lyngby gegn Vejle í dönsku deildinni. Lyngby er í næst neðsta sæti með níu stig eftir 13 umferðir en Vejle er á botninum með 4 stig.

Hólmbert Aron Friðjónsson þurfti að fara af velli eftir stundafjórðung þegar Preussen Munster gerði 1-1 jafntefli gegn Braunschweig í næst efstu deild í Þýskalandi. Liðið er í 17. og næst neðsta sæti með 7 stig eftir 10 umferðir.

Kolbeinn Finnsson kom ekkert við sögu þegar Utrecht tapaði 2-0 gegn Feyenoord í hollensku deildinni. Utrecht er í 2. sæti með 22 stig eftir níu umferðir en Feyenoord er í 3. sæti með 19 stig.

Sjáðu markið hjá Arnóri Ingva hér fyrir neðan.


Athugasemdir
banner
banner
banner