PSG í baráttuna um Trent - Liverpool hefur áhuga á Dedic - Perez undirbýr stjóraskipti
   sun 27. október 2024 19:28
Brynjar Ingi Erluson
Hálfleikur: Blikar rúmum 45 mínútum frá titlinum
Blikar eru í ágætis stöðu í hálfleik
Blikar eru í ágætis stöðu í hálfleik
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Breiðablik er rúmum 45 mínútum frá því að vinna Bestu deild karla í ár, en liðið er að vinna Víking, 1-0, í úrslitaleik deildarinnar í Víkinni.

Lestu um leikinn: Víkingur R. 0 -  3 Breiðablik

Taugarnar hafa sett sitt mark svolítið á leikinn og liðin fengið fá færi á því að ná góðu spili.

Blikarnir fengu tvö hættuleg færi snemma leiks. Davíð Ingvarsson átti hörkuskot sem Ingvar Jónsson varði út á Höskuld Gunnlaugsson. Hann fann Andra Rafn Yeoman rétt fyrir utan teiginn sem átti ágætis skot en aftur varði Ingvar.

Danijel Dejan Djuric fékk besta færi Víkinga á 26. mínútu er boltinn datt fyrir hann rétt fyrir utan teiginn en skotið vel framhjá markinu.

Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, dómari leiksins, var mikið að blása í flautuna, bæði vegna samstuðs og þá var mikið af litlum brotum, en aðeins eitt gult spjald í þessum hálfleik sem Ísak Snær Þorvaldsson fékk á 32. mínútu.

Sex mínútum eftir það kom hann Blikum í forystu. Aron Bjarnason kom með flotta fyrirgjöf inn í teiginn og voru Víkingar í mestu vandræðum með að hreinsa frá. Ísak stal boltanum í teignum og potaði honum undir Ingvar í markinu.

Staðan í hálfleik 1-0 fyrir Blikum sem eru rúmum 45 mínútum frá því að vinna Bestu deildina í ár. Þetta er allt galopið en Víkingum dugir jafntefli til þess að verja titilinn.
Athugasemdir
banner
banner