PSG í baráttuna um Trent - Liverpool hefur áhuga á Dedic - Perez undirbýr stjóraskipti
   sun 27. október 2024 18:30
Brynjar Ingi Erluson
England: Salah náði í stig fyrir Liverpool í spennuþrungnum leik á Emirates
Mohamed Salah skoraði jöfnunarmark Liverpool
Mohamed Salah skoraði jöfnunarmark Liverpool
Mynd: Getty Images
Mikel Merino fagnar öðru marki Arsenal
Mikel Merino fagnar öðru marki Arsenal
Mynd: Getty Images
Leikmenn Arsenal voru ekki ánægðir með Anthony Taylor í nokkrum atvikum
Leikmenn Arsenal voru ekki ánægðir með Anthony Taylor í nokkrum atvikum
Mynd: Getty Images
Arsenal 2 - 2 Liverpool
1-0 Bukayo Saka ('9 )
1-1 Virgil van Dijk ('18 )
2-1 Mikel Merino ('43 )
2-2 Mohamed Salah ('81 )

Arsenal og Liverpool gerðu stórmeistarajafntefli í 9. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Emirates-leikvanginum í Lundúnum í kvöld. Mohamed Salah bjargaði stigi fyrir Liverpool þegar lítið var eftir af leiknum.

Það vantaði mikilvæga leikmenn í báðum liðum fyrir leikinn. Arsenal var án Martin Ödegaard, William Saliba, Riccardo Calafiori á meðan Liverpool var án Diogo Jota, Alisson og Harvey Elliott.

Heimamenn tóku forystuna eftir níu mínútur. Ben White setti langan bolta á hægri vænginn á Bukayo Saka. Englendingurinn keyrði hægra megin inn í teiginn, lék á Andy Robertson og afgreiddi boltann snyrtilega efst í hægra hornið.

Níu mínútum síðar jafnaði Virgil van Dijk með skalla eftir hornspyrnu. Trent Alexander-Arnold setti spyrnuna á Luis Díaz sem var á nærstönginni, sá skallaði hann áfram á Van Dijk sem náði að stinga sér fram fyrir varnarmann og setja boltann í netið.

Mörkin hefðu hæglega getað verið fleiri. Bukayo Saka og Mohamed Salah fengu báðir góð færi en nýttu illa.

Umdeilt atvik kom upp eftir hálftíma þegar Ibrahima Konate hamraði Gabriel Martinelli í grasið. VAR skoðaði atvikið og taldi Konate hafa tekið boltann, en það var mjög erfitt að greina það á endursýningunni.

Arsenal var með öll völd og tókst að komast aftur í forystu á 42. mínútu. Declan Rice skilaði aukaspyrnu inn á miðjan teiginn á Mikel Merino sem þrumuskallaði boltanum fram hjá Caoimhin Kelleher í markinu.

Heimamenn urðu fyrir áfalli snemma í síðari hálfleiknum er brasilíski miðvörðurinn Gabriel Magalhaes meiddist og gat ekki haldið leik áfram. Jakub Kiwior kom inn í hans stað.

Arne Slot, stjóri Liverpool, virtist breyta um taktík í lok leiksins og fara í þriggja manna vörn og þá kom jöfnunarmarkið.

Alexander-Arnold átti frábæra sendingu inn á Darwin Nunez sem lagði boltann til hliðar á Mohamed Salah. Egypski sóknarmaðurinn skoraði með laglegu vinstri fótar skoti í vinstra hornið og staðan jöfn.

Arsenal ætlaði að keyra á sigurinn í lokin. Liðið kom boltanum í netið í uppbótartíma en búið var að flauta brot á Kai Havertz sem fór með höndina í Konate.

Ekkert sigurmark kom í annars spennuþrungin leik á Emirates. Lokatölur 2-2. Liverpool-menn eflaust mjög sáttir með að taka stig í Lundúnum á meðan Arsenal svekkt með að ná ekki í sigur. Liverpool er með 22 stig í öðru sæti en Arsenal í þriðja sæti með 18 stig.
Athugasemdir
banner
banner