PSG í baráttuna um Trent - Liverpool hefur áhuga á Dedic - Perez undirbýr stjóraskipti
   mán 28. október 2024 11:11
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Berglind flýtir sér ekki - „Félagið sjálft er ekkert slæmt"
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Berglind Björg Þorvaldsdóttir fékk símtal frá framkvæmdastjóra Vals fyrir um þremur vikum síðan þar sem henni var tilkynnt að félagið væri að nýta sér uppsagnarákvæði í samningi hennar. Berglind var með tveggja ára samning við félagið en samningurinn var uppsegjanlegur í haust.

Berglind var að snúa til baka eftir barnseign og skoraði fjögur mörk í þrettán deildarleikjum í sumar. Hún ræddi við Fótbolta.net í dag.

„Staðan er óbreytt, allir í fríi og ég er sjálf að fara í frí. Það eru einhverjar þreifingar og ég er búin að heyra í nokkrum félögum. Þetta kemur bara í ljós," segir Berglind.

Nú er ný stjórn tekin við hjá Val, er búið að taka fund með henni?

„Nei, ég hef ekkert heyrt í þeim. "

Finnst þér þetta skrítin staða?

„Já, þetta er mjög skrítin staða, ég veit ekki alveg hvað er í gangi þarna, en ég hef allavega ekkert heyrt frá þeim, ekki frá neinum."

Er Berglind klár í að bíða eftir því að ræða við Val þar til að félagið hefur fundið eftirmann Péturs?

„Ég er ekki að fara skrifa undir nein staðar strax, er ekkert farin að ákveða hver næstu skref eru. Það sem gerðist er ennþá að síast inn. Jú, ég verð örugglega tilbúin í að setjast niður með þeim sem tekur við sem þjálfari."

Langar þig að vera áfram hjá Val?

„Eins og ég segi er ég alveg opin fyrir því að hlusta á hvað þau hafa að segja og bjóða og hver stefnan þeirra sé. Ég útiloka ekki neitt."

Fékkstu einhver viðbrögð frá fólki í kringum þig eftir að kom fram að samningnum þínum var sagt upp?

„Ég fékk helling af skilaboðum, fólk að sýna stuðning."

Setti ákvörðunin hjá stjórninni, að segja samningi þínum upp, einhvern stimpil á félagið í þínum augum?

„Nei, þetta er ekkert félagið sjálft. Þetta voru bara menn í stjórn að taka ákvörðun. Félagið sjálft er ekkert slæmt og mér leið vel þegar ég var þarna. Þetta er bara leiðindamál," segir Berglind.

Berglind er 32 ára framherji sem á að baki 72 landsleiki og í þeim hefur hún skorað tólf mörk.
Athugasemdir
banner
banner
banner