Landsliðskonan Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði eina mark Íslands í 3-1 tapinu gegn Bandaríkjunum í gærkvöldi, en hún ræddi við KSÍ um leikinn og markið.
Markið hennar Karólínu var eitt flottasta mark ársins hjá landsliðinu.
Hún skoraði beint úr hornspyrnu á 31. mínútu, en boltinn sveif yfir allan pakkann í teignum og í fjærhornið.
Ísland fór með 1-0 forystu inn í hálfleikinn en bandaríska liðið náði að refsa með auðveldum mörkum og vann leikinn 3-1.
„Ég er bara mjög svekkt. Steini sagði að þetta hafi verið í fyrsta skiptið síðan hann tók við að við missum niður 1-0 forystu, sem er gríðarlega svekkjandi. Þær skoða auðveld mörk og hefðum getað gert betur í því, en auðvitað er þetta eitt besta landslið í heimi þannig við byggjum ofan á þessa frammistöðu,“ sagði Karólína við KSÍ.
Eruð þið sáttar við frammistöðuna?
„Já, ég held að við getum ekki verið annað en það. Við vorum inn í báðum leikjunum, skorum í báðum leikjunum og áttum góða spilkafla inn á milli þannig ég held við getum labbað sáttar frá borði.“
Fullt af hlutum sem við getum tekið inn í framtíðina?
„Klárlega. Það var róterað mikið í þessum leikjum og það sást ekkert á liðinu að það hafi verið að breyta og mér fannst gríðarlegur stígandi í báðum leikjunum þannig ég er sátt.“
Mark beint úr horni. Hvernig var að sjá boltann enda í netinu?
„Gríðarlega sátt. Langt síðan ég skoraði þannig ég var sjúklega ánægð,“ sagði Karólína í lokin.
Athugasemdir