Elvar Geir Magnússon skrifar frá Cardiff
„Æfingaleikir eru öðruvísi en keppnisleikir og maður veit ekki hvort þeir eru að fara að prófa eitthvað nýtt eða stilli upp sínu sterkasta liði," segir markahrókurinn Alfreð Finnbogason en Ísland mætir Wales í vináttulandsleik í Cardiff í kvöld.
„Það kom fram á fundi hjá okkur að þeir halda ekki mjög oft hreinu og við skorum oft mörk svo vonandi verður þetta markaleikur."
Fótbolti.net ræddi við Alfreð eftir æfingu í gær og má sjá það viðtal í spilaranum hér að ofan. Hann hefur raðað inn mörkum fyrir Heerenveen í Hollandi.
„Það hefur gengið frábærlega á þessu tímabili og ég náð að vera mikilvægur fyrir liðið með því að skora mikilvæg mörk. Það er alltaf gott að skora og hjálpa liðinu um leið."
Alfreð er sífellt orðaður við lið í öðrum deildum Evrópu. Er þetta síðasta tímabil hans með Heerenveen?
„Það á bara eftir að koma í ljós. Ég ætla bara að njóta þess að vera þarna og spila í hverri viku."
Athugasemdir