Ítalia 1-1 (5-3 í vító) Frakkland
0-1 Zinedine Zidane (7)
1-1 Marco Materazzi (18)
0-1 Zinedine Zidane (7)
1-1 Marco Materazzi (18)
Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir Frakka því að Thierry Henry lá eftir á miðjum vellinum eftir aðeins eina mínútu eftir að hafa lent í samstuði við Fabio Cannavaro, fyrirliða Ítalíu. Í fyrstu leit þetta ekki vel út því Henry virtist liggja vankaður á vellinum en eftir að læknar franska liðsins höfðu hugað að honum í nokkrar mínútur þá kom hann aftur inná.
En strax eftir þetta fékk Florent Malouda sendingu inn fyrir vörn Ítala og Marco Materazzi braut á honum en snertingin virtist ekki vera mikil en dómari leiksins, Horacio Elizondo, dæmdi vítaspyrnu. Zinedine Zidane, fyrirliði Frakka, tók vítið og vippaði boltanum í slána, inn og aftur í slánna, glæsilega gert hjá Zidane sem var að spila sinn síðasta leik á ferlinum. Hann er aðeins fjórði leikmaðurinn sem nær að skora í tveimur úrslitaleikjum á HM.
Þetta mark var það fyrsta sem Ítalir hafa fengið á sig á HM sem andstæðingur þeirra skorar en eina markið sem þeir höfðu fengið á sig fyrir leikinn var sjálfsmark Cristiano Zaccardo gegn Bandaríkjunum í riðlakeppninni.
Ítalir virtust vakna við þetta mark hjá Zidane og voru meira með boltann en án þess að skapa sér nein færi. En á 18.mínútu fengu þeir hornspyrnu sem Andrea Pirlo tók. Hún hitti beint á kollinn á Marco Materazzi sem stökk manna hæst og hamraði boltann í netið en það var hann sem gaf Frökkum vítið stutt áður. Byrjunin á leiknum hreint frábær og það dróg ekkert af leikmönnum eftir þessi mörk.
Ítalir voru sterkari það sem eftir lifði hálfleiksins og meðal annars átti Luca Toni skalla
í slánna eftir hornspyrnu en þær voru stórhættulegar í leiknum hjá Ítalíu. Staðan í hálfleik 1-1 og vonandi að seinni hálfleikurinn yrði jafn skemmtilegur og sá fyrri
Ítalir voru þó sprækari en Frakkar og hefðu með smá heppni getað bætt við marki.
Fyrstu 15 mínútur seinni hálfleiks voru Frakkar mun sprækari en Ítalir og áttu nokkrar góðar sóknir með Thierry Henry í broddi fylkingar. Þeir hefðu getað fengið annað víti á 53.mínútu þegar Gianluca Zambrotta braut á Florent Malouda en dómarinn lét leikinn halda áfram. Þetta virtist vera meira víti heldur en vítaspyrnan í fyrri hálfleik.
En á 62.mínútu skoraði Luca Toni fyrir Ítalíu með skalla þvert gegn gangi leiksins og allt ætlaði um koll að keyra en markið var dæmt af þar sem Toni var rangstæður þegar hann fékk sendinguna. Strax eftir þetta gabbaði Henry Fabio Cannavaro og náði skoti á markið en Buffon gerði vel og varði skot hans.
Frakkar áttu tvö bestu færin í fyrra hluta framlengingarinnar. Fyrst var það Franck Ribery sem komst inn í teiginn en skot hans fór rétt framhjá markinu. Seinna færið var frábær skalli hjá fyrirliðanum Zidane en aðeins stórkostleg markvarsla Gianluigi Buffon kom í veg fyrir að boltinn söng í netinu.
Í byrjun seinni hluta framlengingarinnar átti sér stað ótrúlegt atvik milli Zinedine Zidane og Marco Materazzi. Eftir smávægilegt orðaskak milli þeirra skallar Zidane fast í bringuna á Materazzi sem fellur við. Eftir að dómarinn hafði rætt við aðstoðarmann sinn þá rak hann Zidane umsvifalaust af velli. Þar með lauk ferli eins besta knattspyrnumanns allra tíma en ekki á þann hátt sem hann hefði kosið sér.
Þetta atvik setti svartan blett á annars stórskemmtilegan fótboltaleik en ekkert meira markvert .
Það var Andrea Pirlo sem tók fyrstu spyrnuna og skoraði örugglega á mitt markið. Sylvain Wiltord steig næstur á punktinn og sendi Buffon í vitlaust horn og staðan því jöfn. Markaskorarinn Marco Materazzi gergði engin mistök en það gerði David Trezeguet því hann skaut í slánna og niður en boltinn fór ekki innfyrir línuna. Daniele De Rossi tók næsta víti fyrir Ítali og skoraði sem og Eric Abidal hjá Frökkum. Staðan 3-2 fyrir Ítölum og Alessandro Del Piero tók næsta víti og skoraði. Það þýddi að Willy Sagnol varð að skora sem hann og gerði örugglega. Nú áttu liðin eitt víti eftir hvort og Fabio Grosso gat tryggt Ítölum heimsmeistaratitilinn með því að skora úr vítinu sínu. Hann fór öruggur á punktinn og skoraði. Ítalir eru því heimsmeistarar í knattspyrnu í fjórða sinn!
Ítalía: Buffon; Zambrotta, Grosso, Cannavaro, Materazzi; Gattuso, Camoranesi (Del Piero 86), Pirlo, Perrotta (De Rossi 60), Totti (Iaquinta 60), Toni.
Frakkland: Barthez; Sagnol, Abidal, Thuram, Gallas; Makelele, Vieira (Diarra 56), Malouda, Ribery (Trezeguet 101), Zidane, Henry (Wiltord 107).
Athugasemdir